140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[01:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurninguna, um það að tekjuhliðin sé munaðarlaus, er það nokkuð sem menn þurfa að laga. Menn eiga bara að vinda sér í að laga þetta. Það er greinilega einhver veila í kerfinu. Nefndin hét efnahags- og skattanefnd áður og þá heyrðu skattamál undir hana og mér skilst að þau heyri enn þá undir hana samkvæmt lýsingu. Tekjuhliðin er aðallega skattamál þannig að mér finnst mjög eðlilegt að efnahags- og viðskiptanefnd fari í gegnum tekjuhliðina, það eru skattlagningarmál, og gefi síðan fjárlaganefnd umsögn um það hvort það sé í lagi og hvort gera þurfi á því breytingar miðað við þjóðhagsspár og annað slíkt. Þetta er líka efnahagsnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, þannig að hún yrði mjög vel í færum til þess.

Menn ættu að laga þetta sem allra fyrst. Það er viðbúið að það séu einhverjar veilur á nýjum lögum eins og nú gilda um þingsköpin og þá á að laga þær strax og þær koma fram eða koma með einhverja aðra lausn ef mönnum sýnist svo.

Varðandi sérstakar vaxtabætur, 1.400 milljónir, sem eru færðar sem tekjur hjá ríkissjóði en eiga að koma sem skattur á lífeyrissjóði er það náttúrlega nokkuð sem LSR, B-deildin sem er með skuldbindingu sem ekki hefur verið færð — það er náttúrlega alveg kapítuli út af fyrir sig að þetta skuli ekki hafa verið fært. Ef það hefði verið gert kæmi þetta sem skuld þar á móti tekjunum, gjaldahlið þeim megin. Núna kemur þetta bara sem tekjur í ríkissjóð en ekki sem aukning skuldbindingar gagnvart B-deildinni, líka A-deildinni sem einnig er í vanskilum eða vantar peninga inn í. Þetta er afleiðing af því að skuldbindingarnar eru ekki rétt færðar.