140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór yfir sína sýn á stjórn efnahagsmálanna og hvernig honum fannst hafa gengið. Hann kom líka inn á það að margir hefðu kannski aðra skoðun og að við yrðum svo sem að virða það hvert hjá öðru. Flestir vita að við verðum seint alveg sammála um hvernig skynsamlegt er að breyta um stefnu í efnahagsmálum, ég ætla svo sem ekki að ræða það sérstaklega í þessu stutta andsvari.

Ég hef töluvert rætt um aga í fjármálum síðan ég kom inn á þingið. Hann er meðal þess sem við höfum rætt í hv. fjárlaganefnd þar sem við eigum báðir sæti, við hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, og nú spyr ég: Hver er skoðun hans á því að við ættum að stíga ákveðið skref við samþykkt þessara fjárlaga og gefa það merki að viðkomandi stofnanir skuli fara eftir fjárlögum? Þá færum við í vinnu við að breyta einhverjum lögum, sem ég tel ekki mjög tímafreka, sem gerði það að verkum að markaðar tekjur, sértekjur, rynnu ekki beint til stofnananna. Það gæti komið í veg fyrir að það gerðist sem gerðist við lokafjárlög árið 2010 þar sem allt aðrar upplýsingar koma fram en var lagt upp með í fjárlögum fyrir árið 2010. Ef allt fer fram sem horfir mun þetta þing ekki ganga frá lokafjárlögum fyrir árið 2012 vegna þess að þá verður kjörtímabilið búið, það verður gert haustið 2013, og ég tel mjög mikilvægt að við sendum þetta merki núna til að koma á aga í ríkisfjármálum. Það er mín skoðun að það mundi spara töluverða peninga sem við gætum forgangsraðað upp á nýtt í þágu velferðarmála eða heilbrigðismála eða hvar sem mönnum finnst að eigi að bæta við. (Forseti hringir.)