140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég get algerlega tekið undir með honum, það er mjög mikilvægt að hafa aga í ríkisfjármálunum. Ég held að við séum sammála um það. Mér finnst það líka hafa komið fram í þessari umræðu í dag að mjög margir, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, hafa haft orð á því að það sé mjög mikilvægt að hafa góðan aga í ríkisfjármálunum. Margir hafa líka nefnt það að heilmikill árangur hafi náðst í því að undanförnu. Það finnst mér mjög jákvætt.

Þingmaðurinn nefnir hvort hér eigi að gefa út einhver sérstök merki, einhver leiðarljós um að nú vilji menn taka jafnvel enn betur á. Hann nefnir meðal annars markaða tekjustofna í því efni. Já, ég tel fullt tilefni til að fara yfir ýmislegt í lagaumhverfi okkar og almennt held ég að stefnan ætti að vera sú að markaðir tekjustofnar ættu að renna í ríkissjóð og síðan gæti fjárveitingavaldið ákveðið með hvaða hætti þeim yrði útdeilt. Ég held að það mundi meira að segja auðvelda okkur að forgangsraða.

Varðandi lokafjárlögin væri vissulega ákjósanlegt að þau gætu komið fyrr til afgreiðslu þingsins. Ég man til dæmis að haustið 2009 lagði núverandi hæstv. fjármálaráðherra fram frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2008, nema það hafi verið 2007, sem hann bar enga ábyrgð á en þetta er nokkuð sem tilheyrir verkunum sem menn taka að sér þegar þeir fara í fjármálaráðuneytið. Vissulega væri það mjög til bóta ef við gætum unnið að því í sameiningu. Ég er fyrir mitt leyti að sjálfsögðu reiðubúinn að taka þátt í því með hv. þingmanni.