140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom víða við í ræðu sinni. Ekki er laust við að á ræðu hans megi merkja að hann sé hugsanlega að lýsa öðru Íslandi en margir Íslendingar upplifa að þeir lifi í. Það sem ég hjó eftir í ræðu hv. þingmanns var að á einum stað var fjallað um að á tímum sem þessum og í þrengingum sem þessum væri mikilvægt að huga að öllum kostnaðarliðum.

Ég beindi nýverið fyrirspurn til allra ráðuneyta og undirstofnana þeirra til að forvitnast um utanlandsferðir fyrstu níu mánuði ársins. Ekki er laust við að þær tölur sem komu út úr því séu vægast sagt sláandi. Komið er svar frá um helmingi ráðuneyta og stór ráðuneyti eftir eins og til dæmis utanríkisráðuneytið. Niðurstaðan er sú að embættismenn og ráðuneytisstarfsfólk í þessum fimm ráðuneytum hafi farið í 3.202 utanlandsferðir á fyrstu níu mánuðum ársins til um 68 landa. Heildarkostnaður við þetta sé um 700–800 millj. kr. einungis í flugfargjöld.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji eðlilegt á tímum sem þessum að þessi kostnaður sé þetta hár og hvort réttlætanlegt sé að ganga svo harkalega fram í heilbrigðiskerfinu og í velferðarmálum á sama tíma og ekkert er gert til að sporna við kostnaðarliðum sem þessum.