140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þessari umræðu. Þó þótti mér eiginlega áhugaverðara að hlusta á upptaktinn að þeirri umræðu sem fór fram fyrr í dag. Þá átti sér nefnilega stað eins konar pólitískt hópefli sem birtist í því að stjórnarliðar komu í ræðustól hverjir á fætur öðrum, töluðu kjarkinn hver í annan og sögðu: Nú lifum við á erfiðum tímum, nú er heldur betur sótt að þessari merkilegu ríkisstjórn, vinstri stjórninni, nú verðum við að standa í lappirnar og nú megum við hvergi gefa eftir. Við erum að vinna svo merkilegt verk að við megum hvergi nokkurs staðar gefa eftir. Nú verðum við að standa saman þó að það standi til að reka einn ráðherra.

Mér fannst á köflum að þetta væri að leysast upp úr því að vera venjulegt hópefli, eins og maður hefur heyrt um, í það að verða eins konar pólitísk vakningarsamkoma. Ég beið bara eftir því að einhver þeirra sem talaði hæst og léti mest fyrir sér fara mundi kalla að lokum hallelúja, hallelúja til að innramma það að við værum stödd hér á pólitískri vakningarsamkomu þar sem reynt væri að tala kjarkinn í mannskapinn og benda honum á að hjálpræðið væri skammt undan ef menn bara gættu þess að missa ekki trúna. Þannig hefur þetta í rauninni verið. Þetta var upptakturinn að þeim málflutningi sem við höfum síðan heyrt hjá þeim ræðumönnum stjórnarliðsins sem hérna hafa talað í dag og í kvöld, sem hafa talað fyrir því og reynt að útskýra fyrir okkur að þeir hafi unnið svo óskaplegt verk að það stappi helst nærri kraftaverki sem unnið hafi verið í því að breyta öllum horfum í okkar samfélagi og að nú horfi allt til betri vegar. Þeir viðurkenna að vísu af hæversku sinni að eitthvað hafi kannski farið úrskeiðis, eitt og eitt hafi ekki alveg gengið eins vel og ætla mætti, en vitna til þess að þeir hafi fengið heldur betur útskriftarskírteini frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum upp á 1. ágætiseinkunn.

Þetta er dálítið skondið. Hverjir hafa hagsmuni af því að draga upp sem glæstasta mynd af því sem gerst hefur á síðustu árum? Það eru auðvitað aðilar málsins, þ.e. ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Það háttaði þannig til að í útskriftarveislu sem haldin var í glæsihúsinu Hörpu gengu Seðlabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin undir próf. Hverjir voru prófdómararnir? Það voru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, ríkisstjórnin og Seðlabankinn. Ég geri ráð fyrir því að við sem höfum stundum þurft að basla í gegnum próf í gegnum tíðina hefðum kosið að hafa þetta þannig, að maður hefði sjálfur getað samið prófið, verið prófdómarinn, gengist undir prófið og gefið sjálfum sér einkunnir. (Gripið fram í.) Það hefði gert manni lífið miklu einfaldara í gegnum tíðina.

Þetta er nokkuð sem mætti benda menntamálayfirvöldum á. Ef hæstv. menntamálaráðherra gæti gefið sér tíma til að líta upp úr önnum sínum sem yfirsjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þessa dagana gæti hún hugað að því að búa til nýja próftöflu, nýja námskrá, sem byggðist á því að nemandinn skrifaði kennslubækurnar, tæki sjálfan sig upp, væri prófdómarinn og gæfi einkunnirnar. Svona einhvern veginn hefur þetta verið og á grundvelli alls þessa hafa menn barið sér á brjóst eins og farísearnir forðum og sagt: Enginn er nú betri en ég.

En er það þannig? Hefur þetta allt gengið svona óskaplega vel fyrir sig, hagvöxturinn verið á blússandi ferð og horfa allir hlutir núna til betri vegar?

Við skulum fara aðeins yfir þetta. Nú ætla ég að gerast prófdómarinn og lesa í gegnum prófgögnin og námsefnið sjálft sem upphaflega var lagt upp með haustið 2008.

Þá var búin til tiltekin efnahagsáætlun sem byggði á tilteknum forsendum. Forsendurnar voru staðan í ríkisfjármálum, staða þjóðarbúsins, hrun bankakerfisins, en menn litu auðvitað líka til þeirra tækifæri sem búa í íslensku samfélagi, möguleikanna sem íslenskt samfélag hefur í þeim innviðum sem við höfum byggt hér upp. Mig rekur minni til þess að fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, kom í ágætisútvarpsviðtal fyrir einhverjum mánuðum og sagði: Menn eiga ekki að tala alla hluti svo mikið niður. Menn verða að muna að á þeim árum sem best gekk í þjóðfélaginu notuðum við peningana einmitt til að byggja upp innviði. Þá bjuggum við til betra fjarskiptakerfi, samgöngukerfi, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi. Auðvitað leit Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til alls þessa og gerði sér grein fyrir því að á grundvelli þessara sterku innviða væri hægt að reisa þetta þjóðfélag úr þeim vanda sem við sannarlega vorum stödd í haustið 2008.

Á grundvelli allra þeirra tækifæra sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sá, eins og við öll hin, að eru í hinu íslenska samfélagi bjó hann til hagvaxtarspá til ársins 2013 og þá kom ýmislegt mjög athyglisvert í ljós. Hann benti á það sem var augljóst, að erfiðasta árið okkar yrði að sjálfsögðu árið 2009, fyrstu eftirköst hrunsins sem varð haustið 2008. Þá var mat hans að landsframleiðslan drægist saman um 10% eða þar um bil, að árið 2010 yrðum við nokkurn veginn komin á núll hagvöxt, þá yrðum við búin að ná botninum, að síðari hluta þessa árs færum við að spyrna okkur upp og þá færi að glitta í hagvöxtinn sem síðan mundi skila sér af miklum krafti þegar á árinu 2011. En hvað gerðist?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði áherslu á það þegar við vorum að móta ríkisfjármálastefnuna fyrir árið 2009 að auðvitað yrðum við að reyna að gæta aðhalds en hann hvatti líka mjög til þess, og um það voru stjórnvöld á þeim tíma sammála, að hvorki væri skynsamlegt að ganga mjög harkalega til verks í niðurskurði né í skattahækkunum á árinu 2009. Menn kveinkuðu sér að vísu mjög úr ræðustóli Alþingis undan þeim áformum sem við gerðum að fjárlögum haustið 2008. Það gerðu alveg sérstaklega þingmenn Vinstri grænna sem fundu öllu því sem gert var í sambandi við niðurskurð allt til foráttu. Mig minnir að þeir hafi samþykkt niðurskurð upp á 10 millj. kr. af öllu því stóra galleríi sem þá var fjallað um.

Engu að síður varð heildarniðurstaðan sú að ganga ekki mjög hart fram í aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálastefnunni vegna þess að það mundi leiða til þess að kreppan kynni að dýpka. Sem betur fer skilaði stefnumörkunin sem þáverandi ríkisstjórn hafði lagt af stað með því að ekki varð 10% samdráttur, heldur 6,7%. Það var gegn háværum mótmælum á þeim tíma, sérstaklega Vinstri grænna sem þá voru í stjórnarandstöðu og hefðu betur verið það lengur. Samdrátturinn var svo sem nógur, en það er heilmikill munur á því hvort samdrátturinn í þjóðarframleiðslunni er 10% eða 6,7% eins og reyndin varð.

Stefnan sem mótuð var 2008 og varð þó til þess að samdrátturinn varð ekki meiri en þetta hefði að sjálfsögðu átt að skila okkur því að við hefðum farið fyrr upp úr öldudalnum en spáð var á haustdögum 2008. Við hefðum þess vegna átt að geta séð hagvöxt þegar á árinu 2010. En það gerðist ekki og nú skulum við bera saman spána eins og hún var gerð haustið 2008 og þann raunveruleika sem við núna stöndum frammi fyrir.

Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í nóvember 2008 var spáð hagvexti á árunum 2011–2013 upp á 13,8%, þ.e. að hagvöxtur yrði á bilinu 4–5% að jafnaði á þessum þremur árum. Nú spáir Hagstofan því að þessi hagvöxtur sem átti að vera tæplega 14% verði 7,7%. Ég tek eftir því að stjórnarliðarnir, nýlega útskrifaðir úr eigin skóla, úr eigin prófi, undan eigin prófdómi, segja okkur að þetta sé alveg stórkostlegt afrek og að úti um allan heim standi menn á öndinni yfir því ótrúlega afreki að skila hagvexti á þremur árum alls upp á 7,7% — sem er þá hvað? 2,5% á ári að jafnaði á árunum 2011–2013 í stað þess að vera 4–5% eins og full ástæða var til að ætla að gæti ræst. Hagvöxturinn hefði að sjálfsögðu getað orðið enn þá meiri miðað við það að kreppan varð ekki dýpri en 6,7% sem menn höfðu áður spáð að yrði 10%.

Þess vegna finnst mér það hljóma mjög undarlega þegar menn koma hér virkilega kokhraustir eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson áðan sem sagði að undur og stórmerki væru að gerast á Íslandi og að nánast allir útlendingar féllu á knén yfir þeim og væru svo undrandi á að þetta skyldi geta gerst. Allt átti þetta auðvitað að vera til að hrósa núverandi stjórnvöldum en þessar tölur eru í raun og veru rassskelling á efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar eins og ég færði rök fyrir.

Nú hafa menn farið í að reikna út raunáhrifin af því að hagvöxturinn varð bara 7,7% á þeim þremur árum sem ég gerði að umtalsefni, frá 2011–2013, í samanburði við það að allar forsendur voru taldar til þess, þegar svartast horfði haustið 2008, að hagvöxturinn gæti orðið 13,8% á þessum árum. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins reiddi fram tölur um þetta á dögunum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þessi munur sem ég vek hér athygli á svari til 5,7% af vergri landsframleiðslu á árinu 2013 þegar þessi áhrif verða komin fram. Þetta svarar til þess að þarna skakki 100 milljörðum kr. í landi þar sem landsframleiðslan er 1.500–1.600 milljarðar kr. Menn skulu átta sig á að þetta er hinn árlegi reikningur sem við, íbúar Íslands, fáum fyrir ranga hagstjórn frá árinu 2009. Þetta er reikningurinn sem vinstri stjórnin er að senda í hausinn á okkur vegna þeirrar röngu hagstjórnar sem hér hefur verið á undanförnum árum. Menn voga sér síðan að hrósa sér fyrir árangur þegar þetta blasir við, að þrátt fyrir að aðstæðurnar hafi jafnvel verið hagstæðari en menn töldu sé hagvöxturinn 100 milljörðum minni en talið var að hann yrði. Þennan reikning fáum við þá í hausinn og hann verður þar þangað til hagvöxturinn fer aftur að skríða upp í 4–5% sem við sjáum því miður ekki samkvæmt hagvaxtarspá Hagstofunnar, hagvaxtarspá Alþýðusambands Íslands og Seðlabankans að gerist í fyrirsjáanlegri framtíð.

Það sést í skjölum sem hefur verið dreift í dag að áhrifin á tekjur ríkisins eru þannig að við getum reiknað um 28% af þessum hagvaxtartölum og þá erum við væntanlega að tala um, miðað við það sem ég er hér að rekja, að áhrifin á tekjur ríkisins geti verið árlega um þessar mundir með neikvæðum hætti 30 milljarðar kr. Ef við reiknum þetta áfram, og hér slæ ég fram tölum sem eru ekki mjög nákvæmar, er ljóst að væri hér meiri hagvöxtur sem allar forsendur liggja til að hefði getað verið hefði það líka áhrif á útgjaldahliðina. Útgjöldin hefðu minnkað, einfaldlega vegna þess að með auknum hagvexti hefði verið meiri atvinna og hærri laun auðvitað og þá hefðu útgjöldin væntanlega lækkað, við skulum segja um 10–20 milljarða kr., og við erum örugglega að tala um að hin jákvæðu áhrif á ríkissjóð hefðu með annarri efnahagsstefnu verið 40–50 milljarðar kr. á ári.

Þetta er mjög alvarlegur hlutur. Þegar hv. stjórnarliðar fara með montsögur sínar af miklum árangri undanfarinna ára ættu þeir að minnsta kosti að hafa þetta í huga.

Hér hefur verið sagt í ræðum að fjárfestingar stefni í það að aukast. Nú skulum við ekki gleyma einu, því að fjárfestingar eru í dag um 13% af vergri landsframleiðslu. Þetta er lægsta tala sem við höfum nokkurn tímann séð á lýðveldistíma Íslands og er auðvitað til vitnis um þann vanda sem við erum stödd í.

Við getum skoðað þetta í hinu evrópska samhengi. Menn hafa verið töluvert duglegir við að bera okkur saman við tölurnar í Evrópu þegar einhverjum meintum árangri hefur verið náð. Fjárfesting okkar í hlutfalli af vergri landsframleiðslu er næstlægst í Evrópu. Ég held að Írland reki lestina og losi okkur undan því að vera tossinn í bekknum.

Nú segja menn kannski: Ja, þetta er eðlilegt. Hér eru búin að vera svo mikil vandræði. Hér hafa ekki verið tækifæri til fjárfestinga. En er það þannig? Nei, það er ekki þannig. Eitt af því sem fylgdi hruninu var mjög lágt gengi. Við erum að hluta til útflutningsdrifið hagkerfi og lágt gengi í þessum efnum hefði vitaskuld átt að stuðla að aukinni fjárfestingu í stóriðjunni, í útflutningsiðnaðinum og sjávarútveginum svo dæmi séu tekin. En við vitum að þetta hefur ekki verið þannig. Þvert á móti hefur fjárfestingin dregist saman, sérstaklega í sjávarútveginum. Þess eru dæmi að fjárfestingin hafi verið til staðar í stóriðjunni, en ég ætla að koma betur að því síðar hvernig því máli öllu saman hefur verið háttað.

Við vitum um þá óvissu sem hefur verið í sjávarútveginum. Á undanförnum árum hefur fjárfestingin að jafnaði verið á bilinu 20–30 milljarðar kr. Jafnvel á hágengistímanum var fjárfestingin 20–30 milljarðar kr., jafnvel á árum þegar við höfðum misst niður afla í einstökum tegundum eins og þorski eða stundum þegar loðnubrestur hefur verið var fjárfestingin nokkurn veginn á þessu róli. Á síðustu þremur árum hefur fjárfestingin hins vegar verið að jafnaði 5 milljarðar á ári. Vitaskuld vita allir ástæðuna. Það þorir enginn að fjárfesta í sjávarútvegi, eða fáir öllu heldur. Þegar maður skoðar hins vegar samsetningu fjárfestingarinnar er hún mjög athyglisverð. Hún á sér fyrst og fremst stað í hinum stærri fyrirtækjum. Minni og veikari fyrirtækin fjárfesta síður þannig að nú sjáum við að það er að verða bil á milli þeirra fyrirtækja sem eru öflugri í sjávarútveginum og hinna sem eru veikari. Það er líka mjög mikið áhyggjuefni.

Það er mjög varlegt að áætla að ef þessari óvissu í sjávarútveginum yrði eytt, t.d. á morgun, hefði uppsöfnuð fjárfestingarþörf á síðustu árum valdið því að fjárfestingarþörfin á næstu tveimur árum gæti verið alls um 60 milljarðar kr. Þetta er örugglega varlega áætlað. Ef við horfum á stóriðjuna vitum við að þótt þar sé hægt að benda á einstök fjárfestingarverkefni sem sannarlega stuðla að hluta til að þeim litla hagvexti sem hér er hafa líka glatast þar stór fjárfestingartækifæri.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna í þessu sambandi er að það hefur gengið mjög illa með skuldauppgjör fyrirtækjanna í landinu. Menn tala núna um það, t.d. í opinberum plöggum hjá Hagstofunni og víðar, að þess sé að vænta að langt verði komið með skuldauppgjör fyrirtækjanna á næsta ári. Þá eru liðin árin 2009, 2010 og 2011, þrjú ár og gott betur, á fjórða ár, frá því að hrunið varð, þangað til menn fara að sjá til lands að mestu leyti í skuldauppgjöri fyrirtækjanna ef þau áform ganga eftir sem menn hafa uppi um þessar mundir. Þetta hefur tafið alla fjárfestingu í landinu, það hefur átt sinn þátt í því að fjárfestingin er þetta lág, að við erum semí-tossinn í bekknum þegar við skoðum okkur í samhengi við Evrópubúa í sambandi við þessar fjárfestingar.

Þær skattbreytingar sem hafa verið gerðar á undanförnum árum hafa í mörgum tilvikum verið ákaflega vanhugsaðar. Látum liggja á milli hluta hina pólitísku umræðu um réttlætið og ranglætið í skattbreytingunum. En hljótum við ekki að vera sammála um að við viljum að skattbreytingar sem við grípum til hafi þau áhrif að skila að minnsta kosti í samræmi við hlutfallshækkun skattanna þeirri tekjuaukningu sem þeim er ætlað að skila inn í þjóðarbúið? Það hefur gerst að hluta til, það sjáum við svo sem í tekjuþróun fjárlaganna, en við sjáum líka ýmis dæmi um ýmsa neysluskatta sem hafa valdið því að það hefur dregið úr neyslunni og þar með dregið úr tekjuöflun ríkissjóðs af þessum sköttum. Það eru vanhugsaðir skattar.

Við getum líka nefnt í þessu sambandi hinn dæmalausa kolefnisskatt sem ríkisstjórnin hefur nú í tvígang verið gerð afturreka með. Árið 2009, við fyrstu fjárlagagerð þessarar ríkisstjórnar, var boðað að setja á sérstakan kolefnisskatt. Það var frá því greint í greinargerð þess fjárlagafrumvarps að sá skattur gæti gefið ríkissjóði 16 milljarða kr. Eins og við munum varð heldur betur uppi fótur og fit þegar þessi tala birtist þarna. Þá sór þetta af sér hver hæstv. ráðherrann á fætur öðrum. Hæstv. iðnaðarráðherra sem fer með þann málaflokk þar sem þetta hefði sennilega komið hvað harðast niður var mjög fljót að segja frá því að þessi tala hefði aldrei verið nefnd í ríkisstjórn. Helst beindist grunurinn að prenturunum í prentsmiðjunni, að þeir kynnu að hafa látið inn þessa tölu, a.m.k. vildi enginn ráðherra kannast við að hafa sett hana inn í fjárlagafrumvarpið. Þegar menn fóru síðan að skoða afleiðingarnar af þessum skatti blasti við að hann hefði haft mjög neikvæð áhrif á atvinnustig og fjárfestingar og ljóst að þegar upp yrði staðið mundi ríkissjóður stórtapa. Þá varð niðurstaðan sú, eins og við munum, að gert var samkomulag við þau fyrirtæki sem hefðu átt að bera þennan skatt um að þau greiddu skatta sína fyrir fram út árið 2012 og á meðan fengju þau skjól fyrir frekari áformum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Það varð niðurstaðan.

En aldeilis voru menn ekki af baki dottnir. Þeir höfðu engu gleymt og ekkert lært því að með þeim hugmyndum sem kynntar voru í sambandi við tekjuöflun í tengslum við fjárlagafrumvarpið gekk nú aftur gamli kolefnisskatturinn frá 2009. Aftur upphófst sami darraðardansinn. Enn þurftu menn að hafa yfir sömu rökin. Niðurstaðan varð sú, eins og við munum, að hæstv. fjármálaráðherra sem mjög hafði lofsungið og varið þennan skatt í síðustu viku kom til þings í gær eða fyrradag og sagði okkur — það er kominn hér nýr dagur, ég tek eftir því — að hann hefði ákveðið að hætta við þetta. Hann sagði reyndar í einni ræðunni að hann væri búinn að fresta þessu en leiðrétti sig svo í þeirri þriðju og sagðist vera hættur við. Þetta er allt saman dæmi um það hvernig menn geta búið til vanhugsaðar hugmyndir um skattbreytingar.

Þriðja atriðið sem ég vil í þessu sambandi nefna er skattur sem menn hafa uppnefnt fjársýsluskatt og er launaskattur á bankana. Hann mun fyrst og fremst bitna, og það mjög harkalega, á minni bönkum og fjármálafyrirtækjum í landinu, svo sem sparisjóðunum úti um landið, litlu fjármálafyrirtækjunum sem hafa reynt að hasla sér völl í kreppunni eftir allt sem á undan hefur gengið og hefðu heldur betur þurft á sínu að halda til að geta einmitt tekið þátt í þeirri viðreisn atvinnulífsins sem okkur öllum er svo nauðsynleg. Þá var þessum bankafjársýsluskatti skellt á, launaskatti sem er innheimtur af launakostnaði fyrirtækjanna.

Við sáum fyrstu afleiðingar þess í dag að hluta til. Íslandsbanki sagði upp 42 starfsmönnum, lætur 21 fara á eftirlaun og boðar síðan frekari uppsagnir eftir áramótin. Hann kynnti uppsagnirnar með þeim hætti að annars vegar væri um að ræða almennar hagræðingaraðgerðir og hins vegar afleiðingu af þessum launaskatti sem auðvitað leggst á þessa banka, þó öllu minna en á litlu sparisjóðina og litlu fjármálafyrirtækin. Þessir stóru bankar fengu að minnsta kosti í vöggugjöf heilmikla meðgjöf sem fólst í því, eins og við munum, að þeir yfirtóku útlán á niðursettu verði sem þeir hafa núna uppfært í bókum sínum og það gefur þeim rekstrarlegt forskot langt fram yfir litlu sparisjóðina. Litlu sparisjóðirnir úti um landið munu síðan á næsta ári borga 473 millj. kr. í heildarálögur og það blasir við hvar sá kostnaður mun lenda. Hann lendir að nokkru leyti hjá viðskiptavinunum í formi hærri vaxtamunar. Fyrst og fremst mun hann leiða til þess að þessar fjármálastofnanir munu standa höllum fæti í samkeppni við þær stóru sem hafa fengið meðgjöfina sem ég fór hér lauslega yfir.

Menn hafa verið dálítið duglegir við að segja okkur það líka að það sé ánægjulegt að það glitti í einhverja aukna fjárfestingu og þá eru menn að reikna upp 16% aukningu sem er ofan á mjög lága tölu og skiptir býsna litlu máli. Eftir sem áður er því spáð að heildarfjárfestingin í landinu verði um 15% af landsframleiðslu. Ég vek athygli á því að þegar gerður var nýr kjarasamningur á þessu ári — í maí, er það ekki rétt? — var gert ráð fyrir því að fjárfestingarnar færu upp í 20%. Samtök atvinnulífsins segja að til þess að það geti gengið eftir vanti 100 milljarða inn í fjárfestinguna miðað við það sem spáð var og að fjárfestingin þurfi að hækka um 75%. Enn þá erum við óralangt frá þessu markmiði sem er auðvitað okkar mikla áhyggjuefni því að til þess að hagvöxturinn sé sjálfbær þurfum við miklu meiri fjárfestingu en við upplifum í dag.

Alþýðusamband Íslands rekur það í hagspánni sem það sendi frá sér á haustmánuðum að nýfjárfestingar í hagkerfinu séu minni en svarar til afskriftanna hjá fyrirtækjunum. Hvað þýðir þetta? Jú, alveg eins og Alþýðusamband Íslands bendir réttilega á dugar sú fjárfesting sem núna er til staðar í atvinnulífinu ekki til þess að bæta upp þá rýrnun sem hefur orðið á tækjum og tólum vegna þess að nýfjárfestingarnar eru minni en afskriftirnar. Það þýðir að geta fyrirtækjanna til verðmætasköpunar hefur rýrnað. Afskriftirnar, það að tækin, tólin, fjárfestingarnar í húsum og hverju sem er sem ganga úr sér á einhverjum tíma, svara til hærri upphæðar en þeirrar fjárfestingar sem á sér stað og menn hrósa sér svo mjög yfir.

Menn hrósa sér af fleiru, m.a. því að frá útlöndum berist þessi jákvæðu tíðindi. Ég er búinn að fara yfir hluta af því. Eitt af því sem hefur vakið athygli er nýtt mat frá Standard & Poor's. Sannarlega eru jákvæð teikn í því, við erum að vísu með sama matið, en það breytist úr því að vera neikvætt í stöðugt held ég, eitthvað slíkt. Við skulum að minnsta kosti gefa ríkisstjórninni 0,1 fyrir það. En allt er þetta líka mjög mikilli óvissu háð. Þeir segja að þetta lánshæfismat geti hækkað ef hingað tekst að laða auknar erlendar fjárfestingar. Er það að gerast? Sjáum við á hverjum degi ríkisstjórnina ganga fram fyrir skjöldu til að laða að auknar erlendar fjárfestingar? Ég hef ekki beinlínis orðið var við það. Það hefur ekki verið farið um með húrrahrópum þegar útlendingar hafa viljað fjárfesta hérna. Innan ríkisstjórnarinnar eru skiptar skoðanir um þetta.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra segja okkur frá því að þau séu að undirbúa sérstaka sóknaráætlun í því að draga hingað að erlenda fjárfesta en samstarfsflokkurinn segir að hann vilji draga úr erlendum fjárfestingum vegna þess að þær séu hættulegar, þær séu hluti af því að búa til erlend yfirráð hér á landi. Sömuleiðis segja Standard & Poor's að lánshæfismat okkar Íslendinga gæti hækkað ef hagvaxtarhorfur bötnuðu. Er það þannig? Sjáum við batnandi hagvaxtarhorfur? Sjáum við hærri hagvaxtartölur á árinu 2012 en Hagstofan metur að geti orðið á árinu 2011? Nei. Sjáum við hærri hagvaxtartölur fyrir árið 2013 en á árinu 2012? Nei, ekki heldur.

Þegar maður skoðar mat Standards & Poor's í þessu samhengi sjáum við því miður ekki neitt sem gefur okkur sérstaklega til kynna að við horfum upp á aukinn hagvöxt þó að það sé pínulítil viðleitni í því.

Svo skulum við líka gá að öðru. Það er alveg rétt að það glittir í þennan hagvöxt á þessu ári, eins og ég hef nefnt, þótt hann sé langtum minni en menn höfðu áætlað, jafnvel í svartsýni sinni, að hann gæti orðið á árinu 2011 þegar menn skoðuðu þetta á árinu 2008. Á hverju byggist nú þessi aukni hagvöxtur? Jú, hann byggist, að hálfu leyti að minnsta kosti, á aukinni einkaneyslu. Og hvernig er einkaneyslan til komin? Hún byggist meðal annars á því að hér voru gerðir kjarasamningar. Kjarasamningarnir fólu í sér eingreiðslu og þeir fólu í sér verulegar launahækkanir en þeir byggðu líka á því að hagvöxturinn í landinu yrði ekki 2% eða 2,5% heldur 4%. Nú erum við fjarri því marki.

Ég var á fundi á dögunum þar sem peningamálastefna Seðlabankans var rædd. Þar voru mjög til umræðu þessir kjarasamningar. Aðilar vinnumarkaðarins voru gagnrýndir fyrir að hafa gert kjarasamninga sem atvinnulífið stæði ekki undir nema forsendur breyttust. Sá sem harðast gekk fram í því var Seðlabanki Íslands sem taldi þessa samninga óðs manns æði. Aðalhagfræðingur Seðlabankans kallaði mjög höstuglega fram í á þessum fundi sem ég var að nefna, til atvinnurekendanna sem sátu í salnum: Hvernig datt ykkur í hug að gera svona samninga? Það er á þessum grundvelli sem Seðlabanki Íslands segir sjálfur, sem er þó að gera hagvaxtarspárnar, að þessi einkaneysla sé greinilega ekki sjálfbær. Það er á þessum grundvelli sem við mælum einhvern hagvöxt, hann byggir á því að það sé þessi aukna einkaneysla sem bankinn sjálfur segir að sé sem sagt ekki sjálfbær.

Síðan höfum við, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og hv. þm. Illugi Gunnarsson röktu ágætlega í ræðum sínum áðan, verið með miklar úttektir á séreignarsparnaði lífeyrissjóðanna sem auðvitað hefur stuðlað að aukinni einkaneyslu og átt sinn þátt í þessu. Síðan eru þær vaxtaniðurgreiðslur sem ríkissjóður er núna að framkvæma en munu auðvitað ekki skila sér með sama hætti á næsta ári. Þegar við skoðum þetta og það að fjárfestingarnar eru þrátt fyrir allt eins litlar og ég er að nefna horfir auðvitað ekki vel um hagvaxtarmöguleika okkar.

Það væri hægt að nefna ýmislegt annað í sambandi við efnahagsumhverfið. Ég ætlaði ekki að vera svona langorður almennt um efnahagspólitíkina en það er tvennt sem ég vil þó nefna áður en ég sný mér að einhverju öðru, annars vegar vekur athygli að þær spár sem voru gerðar um verðlagsþróun fyrr á þessu ári, fyrir ekki löngu síðan, stefndu í allt aðra átt en raunveruleikinn varð. Verðbólgan var farin að slá upp í 5%, er kannski á pínulítilli niðurleið núna vegna hins almenna ástands í samfélaginu, eftirspurnarskortsins. Það hefur síðan leitt til þess að sá vaxtafasi sem við vorum komin í með stýrivextina, sem var eðlilegur miðað við þær aðstæður sem við vorum í, hefur stoppað og raunar snúist við. Stýrivextir Seðlabankans hafa hækkað og ef marka má þær umræður sem hafa birst innan úr Seðlabankanum er alveg augljóst að við sjáum ekki fram á neinar stórbreytingar í þessum efnum. Við erum að horfa á væntanlega svipað vaxtastig í stýrivöxtunum og núna er komið.

Þetta er líka athyglisvert í ljósi þess að þegar við skoðum annan mikilvægan mælikvarða, gengisstigið, sjáum við líka að það eru engar líkur á því að gengi íslensku krónunnar styrkist á næstunni. Menn höfðu um það miklar væntingar, en það eru engar forsendur til þess. Við sjáum til dæmis mikinn innflutning núna sem er að hluta til eðlilegt. Miðað við þá skuldastöðu sem þjóðarbú okkar er í, miðað við það að við ætlum okkur að reyna að byggja hagvöxt til lengri tíma á útflutningsatvinnuvegunum og miðað við þá stöðu sem efnahagslíf okkar er í eru engar líkur á því að gengi íslensku krónunnar styrkist. Allar efnahagsspár allra þeirra aðila sem fást við þetta, hvort sem það er Seðlabankinn, Hagstofan eða ASÍ, ganga út á það sama. Gengið mun síst af öllu styrkjast. Það kann jafnvel eitthvað að veikjast. Þetta er líka athyglisvert í ljósi þess að kjarasamningarnir sem voru gerðir fyrr á þessu ári höfðu að geyma bókun Alþýðusambands Íslands sem fól í sér að ein forsenda samningsins væri sú að gengið mundi styrkjast mjög rösklega, 15–20%, og að gengisvísitalan sem núna er 215 eða 216 ætti að vera komin ofan í 180 á næsta ári. Það yrði að gerast í einhverjum skrefum, ekki það að menn ætluðu að bíða í ofvæni eftir því að gengið hoppaði allt í einu upp í þessa gengisvísitölu, 180.

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt, auðvitað hefur það haft áhrif á stöðu ríkissjóðs að gengið hefur verið hart fram í niðurskurði á ýmsum sviðum. Auðvitað hefur það haft jákvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs hvernig menn hafa gengið fram í tekjuaukningu ríkissjóðs með stórfelldum skattahækkunum. Ég vakti hins vegar athygli á því hvernig hægt hefði verið að koma þessum málum fyrir ef okkur hefði auðnast að byggja hér upp eitthvert hagvaxtarstig í líkingu við það sem menn töldu í svartsýni sinni mjög raunhæft á árinu 2008. Ég ætla nú ekki að hafa fleiri orð um það.

Ég ætla að víkja að einu atriði enn, nú er tími minn að hlaupa frá mér, bara einu atriði sem ég kemst í að fara yfir lauslega, það er niðurskurðurinn í heilbrigðismálum. Ég ætla ekki að vera svo vitlaus að halda því fram að það hefði verið hægt að komast hjá því að öllu leyti að draga saman seglin í útgjöldum til heilbrigðismála. Þau eru svo stór hluti af okkar ríkisbúskap að auðvitað er öllum ljóst að það hefði ekki verið hægt að komast undan því með einhverjum hætti að takast á við þann vanda.

Það sem maður veltir hins vegar fyrir sér er aðferðafræðin, hvernig menn hafa hugsað þetta og farið í það, hvernig menn undirbjuggu niðurskurð. Tökum dæmi frá árinu 2010. Haustið 2010 var lagt fram fjárlagafrumvarp um gríðarlega mikinn niðurskurð í heilbrigðiskerfinu sem sérstaklega átti að birtast okkur í niðurskurði á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þá sögðu menn: Það er ekki hægt að ganga öllu lengra gagnvart Landspítalanum, og það var örugglega mikið rétt, en hins vegar væri nauðsynlegt að skera niður á heilbrigðissviðinu á landsbyggðinni. Það voru sett fram gríðarlega mikil áform, voru þau ekki upp á 2,5 milljarða kr.? Ég hef ekki hirt um að rifja upp og staðfesta þær tölur en einhvern veginn hef ég þessa upphæð í kollinum. Þetta var kynnt hér með miklum bravör. Við munum hvað gerðist síðan. Það var ekki liðin vika þangað til svo margir þingmenn stjórnarliðsins höfðu lýst andstöðu sinni við málið að ég kvað upp úr um það fyrir mína parta að það væri augljóst að þetta mál hefði ekki lengur þingmeirihluta og að það hlyti að vera tímaspursmál hvenær þessu yrði kippt til baka. Og viti menn, það er nákvæmlega það sem gerðist. Menn tóku þá pólitísku ákvörðun við fjárlagagerðina fyrir 2. umr. að kippa þessu til baka, a.m.k. að einhverju leyti og það mjög víða. Þó var það gert þannig að hluta af ætluðum niðurskurði var frestað og átti að koma að fullu til framkvæmda á árinu 2012.

Síðan gerist að sumu leyti hið sama á þessu ári. Hér höfum við í höndunum fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir tilteknum niðurskurði í einstökum heilbrigðisstofnunum úti um landið og hjá Landspítalanum. Nú við 2. umr. erum við að ræða breytingartillögur sem hafa komið frá meiri hluta fjárlaganefndar sem fela í sér að gengið verði til baka með þennan niðurskurð að hluta til. Ég fagna því.

Það sem maður veltir fyrir sér er þetta: Hvað lá eiginlega til grundvallar? Hvað voru menn að hugsa? Hvernig var hugmyndafræðin á bak við þetta? Höfðu menn skoðað áhrifin á einstakar stofnanir? Höfðu menn gert sér grein fyrir afleiðingunum af því sem var lagt fram haustið 2010 og haustið 2011 fyrir fjárlög 2011 og 2012? Það er alveg augljóst að svo var ekki.

Nú vill svo til að ég hef í höndunum dæmi um þetta frá Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki. Henni er ætlað í fjárlagafrumvarpinu að draga saman segl sín um um það bil 63 millj. kr. Síðan var farið í það eftir á að meta hver áhrifin yrðu og hvort mögulegt væri að fara í þennan niðurskurð. Þá getur heldur betur að líta. Það er talið ófært að skera niður 17 milljónir af þessum 63, hæpið með 21 milljón en mögulegt með 21 milljón. Nú er búið að minnka þessa hagræðingarkröfu, en eftir stendur engu að síður krafa um niðurskurð upp á 40 millj. kr. Samkvæmt mati sem er skrifað af aðstoðarmanni hæstv. velferðarráðherra liggur fyrir að helmingurinn af niðurskurðarkröfunni er (Forseti hringir.) hæpinn niðurskurður. Þegar það er skoðað sem var lagt af stað með í upphafi er þriðjungurinn talinn ófær. Engu að síður er vaðið af stað með svona algjörlega óhugsaðan niðurskurð. Úr því að (Forseti hringir.) dæmið er svona um þessa heilbrigðisstofnun fullyrði ég að þetta á við um aðrar heilbrigðisstofnanir. Þetta er til marks um það sleifarlag og þau vondu vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í sambandi við niðurskurðinn hjá hæstv. ríkisstjórn.