140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[04:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kann að vera rétt, og ég ætla ekki að gera lítið úr því að hv. þm. Björn Valur Gíslason sé sammála mér hvað það snertir að verulega sé hægt að draga úr þessum kostnaði. Eins og kom fram í fyrra andsvari hefur sá sem hér stendur ekki nákvæmt yfirlit yfir það hvursu margar utanlandsferðir hann hefur farið í, ekki frekar en aðrir þingmenn. En ekki hræðist ég að það sé tekið saman. Ég get sagt það við hv. þingmann að ég deili skoðunum hans á því að hægt sé að ná verulega niður kostnaði þarna, bæði hjá Alþingi og hjá ráðuneytum og undirstofnunum þeirra við slíkar ferðir. En það má ekki setja það í samhengi við það að menn vilji ekki samstarf við önnur ríki, að menn vilji ekki að samskipti séu á milli þjóða, á milli ráðuneyta og við nágrannaríki okkar. Það má ekki setja það í samhengi. En maður spyr sig hins vegar að því hvort sá fjöldi ferða sem farinn hefur verið hafi verið nauðsynlegur.

Ég get sagt að sumar þeirra ferða sem ég hef farið í taldi ég ekki nauðsynlegar. Ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni, enda er ég ekki í neinni alþjóðanefnd í dag. En einhverjar af þessum ferðum eru mikilvægar til þess að efla samskipti, fundir mikilvægir. En í þessu sambandi vil ég segja: Betur má ef duga skal.