140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[05:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við höfum rætt fjárlagafrumvarpið í 14 eða 15 klukkustundir. Maður skyldi ætla að búið væri að segja allt sem segja þyrfti. Það eru samt nokkrir punktar sem ég vil fara yfir. Mig langar að byrja á að ræða aðeins almennt um fjárlagaumræðuna sjálfa og taka undir hugmyndir sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lagði fram í ræðu sinni fyrr í dag. Hann nefndi að kannski væri ekki skynsamlegt af okkur að ræða fjárlagafrumvarpið, 2. umr., á einum degi langt fram á nótt og fram á morgun, þegar fáir eru í sal og engir fagráðherrar til staðar til að ræða við og jafnvel ekki fjárlaganefndarmenn. Auðvitað er fullt af spurningum sem þingmenn vilja ræða og umræðan yrði kannski fræðilegri og skynsamlegri ef við tækjum lengri tíma í hana og tækjum jafnvel einstök ráðuneyti fyrir í einu. Þá væru líka þeir nefndarmenn sem sætu í þeim nefndum, ásamt fjárlaganefndarfólkinu og viðkomandi fagráðherrum, til staðar til að ræða málin. Þá mundum við kannski ná að brjóta til mergjar mál sem við komum hér upp árlega til að ræða en fáum engin svör við.

Einnig væri mjög áhugavert að ræða hvað verður af þessari áætlun, hvernig hún er notuð. Fjárlögin eru fyrst áætlun og verða síðan lög þegar við samþykkjum þau og allir eiga að fara eftir þeim. Þá er það umræðan: Er þetta notað eins og fjárhagsáætlanir hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum, að menn fari eftir þeim og mánaðarlega sé farið yfir hver staðan er? Nægilegur fjöldi er af fjármálastjórum, alla vega hjá stofnunum ríkisins, þannig að maður skyldi ætla að bókhaldið ætti að geta verið eins og kallað er „up-to-date“, eða fært dag frá degi, þannig að í lok hvers mánaðar lægi staðan fyrir. Það mundi líka þýða að það mundi skýrast á því sama ári hvernig ársreikningurinn liti út en ekki eins og staðan hefur verið hér á undanförnum árum, við erum til dæmis ekki búin að klára ársreikning 2010 og árið 2012 er að ganga í garð, hvað fljótlega verður.

Aðeins um fjárlagafrumvarpið núna: Gert er ráð fyrir að 1,5% halli sé af landsframleiðslu eða um það bil 20 milljarðar. Í ræðum þingmanna fjárlaganefndar á undanförnum dögum og vikum hefur komið fram að við gætu bæst 10, 15 eða 20 milljarðar og hafa menn þar helst bent á Sparisjóð Keflavíkur og Landsbankann en ágreiningur er um hversu mikil meðgjöf ríkisins verður en það er í úrskurðarnefnd og enginn veit hvernig það endar. Þá vil ég aðeins nefna hér líka, og mun koma betur inn á það á eftir, að í sjúkratryggingunum er væntanlegur halli upp á rúman milljarð, 1,2 milljarða, sem ekki virðist vera búið að leysa.

Aðeins um aðrar forsendur fjárlaganna. Það hefur komið fram í fjölmörgum ræðum að vinnan er fyrst byggð á þjóðhagsspá og hagvaxtarspá sem gerð er að sumarlagi og svo kemur endurskoðuð spá núna í nóvember. Við höfum því miður séð það á liðnum árum að þessar spár hafa verið allt of bjartsýnar þannig að í raun er grundvöllurinn fyrir fjárlagafrumvarpinu, fyrir tekjuhlutanum, oft og tíðum ansi rangur og hagvöxturinn í dag er, ef ég man rétt, 2,4% eða 2,6%, en ef hann verður miklu minni eru forsendurnar brostnar fyrir fjárlagafrumvarpinu.

Á sama hátt má segja, og við höfum rætt það á liðnum árum, að hér þurfi að vera hagvöxtur upp á 4–5% vegna þeirrar skuldastöðu og vaxtagreiðslna sem við greiðum til að við getum staðið undir skuldbindingum okkar og þeirri þjónustu sem hið opinbera vill veita. Í því sambandi er oft talað um að 1% hagvöxtur sé um það bil 15 milljarðar í landsframleiðslu og þá sjáum við að með þetta 20 milljarða gat, sem gæti orðið 30 eða 40 milljarðar, þyrftum við að vera hér með hagvöxt sem næmi í það minnsta 3% meiru en þær spár eru í dag.

Ríkisstjórnin hefur gumað sig af því, og stjórnarliðar, að hafa bætt verulega í velferðarkerfið og þá hafa verið reiknaðir inn í það um 20 milljarðar sem fara í atvinnuleysisbætur. Það er alveg gríðarlega há upphæð, atvinnuleysi er auðvitað allt of mikið á Íslandi. Þó að spár hafi jafnvel gert ráð fyrir að það væri enn meira má heldur ekki gleyma því að því miður eru allt of margir komnir á tíma, eru farnir að falla út af atvinnuleysisbótakerfinu vegna þess að þeir hafa verið atvinnulausir í langan tíma, og síðan er gríðarlegur hópur sem hefur flutt úr landi og er þar af leiðandi ekki á atvinnuleysisbótum hér. Um 20 milljarðar í atvinnuleysisbætur, og allar þær upphæðir sem við höfum greitt í þetta á liðnum árum, eru allt of há upphæð. Ef hér væri ríkisstjórn sem hefði atvinnumál sem forgangsmál væri atvinnuleysi minna. Þá væru skatttekjur líka hærri og þá greiddum við augljóslega lægri atvinnuleysisbætur.

Ef okkur hefði til dæmis tekist á liðnum árum að ná atvinnuleysinu niður um 50% væri 10 milljörðum minna í atvinnuleysisbætur og þá þyrfti engan niðurskurð. Niðurskurðurinn var áætlaður um 6,6 eða 6,8 milljarðar, minnir mig, á þessu ári. Auðvitað er stærra gat í að loka fjárlögunum með hagnaði en ef við hugsum bara um þær forsendur sem menn hafa gefið sér þá værum við með umframfjármuni til að standa undir velferðarþjónustunni í landinu. En til þess þarf atvinnustefnu, frú forseti, og tækifærin eru sannarlega til staðar.

Við framsóknarmenn lögðum fram í haust tillögur sem við kölluðum plan B og tvær þingsályktunartillögur sem komu inn í þingið. Önnur var um sókn í atvinnumálum og ef ég fæ aðeins að vitna í nefndarálit 2. minni hluta fjárlaganefndar, fulltrúa Framsóknarflokksins, með leyfi forseta, langar mig að lesa á bls. 7. Þar segir:

„Til þess að skapa störf verður hagkerfið að vaxa. Vinnuafl er til staðar og tækifærin eru til staðar. Þau þarf að nýta. Til viðbótar við ábyrg ríkisfjármál mun það leiða til nauðsynlegs vaxtar hagkerfisins. Framsóknarflokkurinn telur að nú þegar þurfi að hefja sérstakt átak í opinberum framkvæmdum og framkvæmdum þar sem opinberir aðilar hafa forustu eða greiða fyrir þótt einkaaðilar framkvæmi. Mikilvægt er að við val á slíkum framkvæmdum sé horft til vinnuaflsfrekra verkefna og arðsemi þeirra. Slíkt skapar atvinnu og eykur hagvöxt. Um leið er mikilvægt að nýta þetta tækifæri sem nú er til nauðsynlegra og arðsamra framkvæmda til framtíðar, meðan raunverulegur þjóðhagslegur framkvæmdakostnaður er í algeru lágmarki.“

Í annarri tillögu sem við lögðum fram um efnahagsmál stendur, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld þurfa að tryggja öryggi atvinnuveganna og rekstrarskilyrði. Mikilvægt er að ríkisvaldið liðki tafarlaust fyrir framkvæmdum og innleiði skattstefnu sem ýtir undir fjárfestingu og umsvif í atvinnulífinu fremur en að draga úr þeim. Mikilvægasta verkefni stjórnmálanna á sviði sjávarútvegs er að skapa stöðugleika og eyða óvissu fyrir greinina svo hún geti dafnað og fjárfest í nýsköpun, aukið arðsemi og hagvöxt.

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á langtímaáætlun í ríkis- og opinberum fjármálum yfirleitt og að tryggja sjálfbærni í rekstri. Mikilvægt er að áætlanir í ríkisfjármálum séu gerðar lengra fram í tímann en nú tíðkast og er lagt til að gerðar verði áætlanir um fjármál ríkisins til annars vegar fimm ára og hins vegar tíu ára.“

Tækifærin sem við höfum á Íslandi eru fjölmörg og til að nefna nokkur má til að mynda benda á skapandi greinar sem hafa á liðnum árum vaxið mjög enda höfum við byggt upp traust innviðakerfi sem hefur gefið þeim tækifæri til að vaxa.

Þá má nefna ferðaþjónustuna sem sífellt verður öflugri í landinu. Það þarf að efla hana á heilsársgrunni en hún skilar umtalsverðum gjaldeyristekjum. Hún þarf hins vegar að geta greitt hærri laun og vera meira heilsársatvinnugrein. Á næstu árum er ljóst að ferðamönnum mun fjölga hér ef vel er haldið á spöðunum og eins má búast við því að það takist að breikka það tímabil sem ferðamenn koma til landsins smátt og smátt þannig að atvinnugreinin geti dafnað á næstu árum, þá getur þetta orðið ein af undirstöðuatvinnugreinum okkar í framtíðinni.

Þá má að sjálfsögðu nefna matvælaframleiðsluna sem er á ýmsum sviðum, til að mynda landbúnaðinn. Ég held að það séu orðnir fáir sem neita að viðurkenna að á næstu árum og áratugum, ég held að það séu komnar spár um 150 ár fram í tímann, muni matarverð fara hækkandi vegna sífellds skorts á fæðu með fjölgun mannkyns og breyttum siðum í löndum sem eru að taka upp vestrænt neyslumynstur, að þörf fyrir matvæli muni snaraukast. Í því sambandi má benda á landbúnaðinn. Ég held að það séu tækifæri til að auka verulega útflutning á hefðbundnum landbúnaðarafurðum og kannski snúa þeirri umræðu sem hefur verið um landbúnaðinn um nokkuð langt árabil.

Það má líka nefna ýmsa þætti innan landbúnaðarins sem munu styrkja efnahagslífið á Íslandi. Menn hafa til að mynda verið að rækta korn og jafnvel lífdísil, hvort sem það væri repja eða annað, sem hefði þá gjaldeyrissparandi áhrif.

Það eru fleiri þættir í landbúnaðinum og til dæmis hefði verið áhugavert að fá að ræða það við fagráðherra eða fjárlaganefndarmenn af hverju enn er skorið niður í skógaráætlunum landshlutanna. Þar er búið að skera verulega mikið og það langt að hætta er á að það kerfi sem komið var á með útboðum á garðplöntum rústist, og menn eru verulega áhyggjufullir yfir því.

Innan landbúnaðarins eru líka litlar greinar sem menn hafa kannski ekki litið til með miklu trausti á liðnum árum, t.d. loðdýrarækt sem hefur verið að skila rúmlega milljarði í gjaldeyristekjur. Menn hafa haft væntingar um að mjög auðvelt sé að tvöfalda þá framleiðslu sem er í landinu og einstaka aðilar hafa nefnt að jafnvel væri hægt að tí- eða fimmtánfalda hana. Það munar um minna ef við næðum slíkum upphæðum inn sem gjaldeyri og það mundi auka hagvöxt í landinu.

Þá vil ég líka nefna fiskeldi en víða eru kjöraðstæður fyrir hendi. Er kannski rétt að minna á, frú forseti, að í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 upp á síðkastið hefur verið rætt við íslenskan aðila sem hefur haft búsetu í Noregi og hefur uppi hugmyndir um að setja á laggirnar fiskeldi á Vestfjörðum og skapa þar með störf fyrir 50–60 manns hið minnsta og skapa gríðarlegar gjaldeyristekjur. Við höfum klárlega tækifæri til þess sem við höfum ekki nýtt á liðnum árum og þyrftum að horfa til þess.

Þá vil ég nefna sjávarútveginn. Eins og ég nefndi áðan er kannski mikilvægast þar að eyða þeirri óvissu sem um hann hefur verið. Er kannski rétt að benda á að þau frumvarpsdrög eða það vinnuskjal sem sitjandi eða standandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti inn á netið í síðustu viku, og hefur fengið bágt fyrir hjá í það minnsta öðrum stjórnarflokknum og jafnvel sumum í sínum eigin flokki — það hefur farið minna fyrir efnislegri gagnrýni á það skjal enda er það að stóru leyti miklu líkara þeirri niðurstöðu sem kom út úr sátta- og samráðsnefndinni og menn voru sammála um, flestir, auðvitað ekki allir, ekki þeir sem vilja rústa sjávarútveginum, að ætti að vera grundvöllur áframhaldandi vinnu við að smíða nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða. Ég tel mikilvægt að menn færu í það.

Síðan höfum við lagt til að auka mætti sjávarafla, svona skynsamlega aukningu, um 15–20 þúsund þorskígildistonn. Það mundi skila verulegum tekjum í efnahagsbúið. Við höfum sannarlega ótal tækifæri til að auka tekjur og það er lykilatriði að hætta þessari ofsköttunarstefnu og niðurskurði sem er vítahringur og eykur alltaf þörfina á hærri sköttum og meiri sköttum og meiri niðurskurði. Það er lykilatriði að snúa þessum vítahring við og fara að auka tekjur, minnka atvinnuleysi og skapa hagvöxt til lengri tíma. En því miður er því ekki að heilsa hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna því að hér erum við með fjárlagafrumvarp sem lítur nánast út eins og fjárlagafrumvarpið í fyrra þó að einhverjir þættir í því séu vissulega jákvæðari en var í fyrra eða hittiðfyrra.

Þá langar mig aðeins að koma inn á velferðarmálin. Síðustu ræðumenn hafa farið ágætlega inn á það og er rétt að nefna yfirlýsingu Öryrkjabandalagsins, sem bæði hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason fóru vel yfir, og mig langar líka að nefna heilbrigðismálin, sem hv. þm. Eygló Harðardóttir fór vel yfir.

Hæstv. fjármálaráðherra og einnig þó nokkrir stjórnarliðar lýstu því yfir að hér væri allt í blóma. En er það svo? Bara í fréttum í dag, í svari ráðherra hér á þinginu við fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar stjórnarliða — hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson svaraði fyrirspurn um fjarlægðir á fæðingardeildir og staðan er einfaldlega sú að á þó nokkrum svæðum, á Snæfellsnesi, í Dalasýslu, í Barðastrandarsýslu, í Strandasýslu, í Norðurþingi, á Vopnafirði og í Vestur-Skaftafellssýslu, er orðin meira en klukkustundarfjarlægð, 75 kílómetrar eða lengra, 100 kílómetrar, til næstu fæðingardeildar og þess eru dæmi að það séu 250 kílómetrar eins og Þórshöfn á Langanesi. Það sést líka í skjali sem fylgdi svarinu hvernig fæðingar hafa verið að færast á suðvesturhornið og ekki bara áhættufæðingar heldur allar fæðingar. Ef þjónustan er dregin saman og færð lengra þá færa menn sig auðvitað þangað þar sem öruggast er. Eins og við vitum er ekki hægt að panta hvenær börn fæðast og þetta getur þýtt að verðandi mæður þurfa að dvelja langdvölum hér á höfuðborgarsvæðinu áður en barnið fæðist til að vera örugglega í hæfilegum radíus.

Síðan var það önnur mjög neikvæð frétt og ömurleg fyrir íslenska velferðarkerfið um að öldruð kona hafi ekki komist á biðlista þrátt fyrir að hafa fengið heilablóðfall tvisvar sinnum. Þetta á náttúrlega ekki að gerast í velferðarkerfi okkar, það er einfaldlega þannig.

Hér er ekki allt í blóma, við skulum bara viðurkenna það. Niðurskurðurinn hefur verið blóðugur og hann hefur gengið of langt. Rætt var um það í fyrra að lengra yrði ekki haldið, of langt væri gengið. Og það hefur komið í ljós að þrátt fyrir þá frestun á niðurskurði sem varð á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni réðu nokkrar þeirra ekki við að skera niður. Ég get nefnt sem dæmi að á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur álag á starfsmenn aukist það mikið að um 40 millj. kr. af 50 millj. kr. áætluðum taprekstri þessa árs stafa af veikindum starfsmanna, af því að kalla þarf til viðbótarstarfsmenn.

Við þekkjum það úr öllum rekstri að þegar álag á starfsmenn verður of mikið þá aukast veikindi. Við höfum séð það á Alþingi eins og annars staðar. Það er augljóst að of langt var gengið. Engu að síður kom frumvarpið fyrst fram núna í haust og þá var sá sparnaður sem hafði verið lagður til hliðar í fyrra eða frestað kominn aftur, plús 1,5% á allar heilbrigðisstofnanir. Ég ætla ekki bara að ganga svo langt að fara fram á það við fjárlaganefnd að hún endurskoði þetta, eins og komið hefur fram milli 2. og 3. umr., heldur hreinlega að leggja til að allur þessi sparnaður, umfram 1,5%, verði dreginn til baka. Það er einfaldlega ekki hægt að gera þetta.

Ég hefði viljað hafa hæstv. velferðarráðherra og fjárlaganefndarmenn hér til að ræða þetta við þá. Ef ég tek Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þá var áætlað að niðurskurður þar væri um 73 millj. kr., 50 millj. kr. sem var frestað frá í fyrra, plús 1,5%, og síðan eru 30 millj. kr. sem eru þar í halla, þ.e. niðurskurðurinn átti að vera 100 millj. kr. Í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að skila um 20 millj. kr. til baka og síðan eru einhverjar óljósar fregnir um það að um 30 millj. kr. komi frá ráðuneytinu eða 50 millj. kr. Engu að síður er krafan um 50 millj. kr. aðeins 23 millj. kr. lægri en upphaflega krafan.

Sama má segja um Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hún var áætluð með 70 millj. kr. niðurskurð upphaflega og vegna þessa 50 millj. kr. halla, sem ég nefndi áðan, var niðurskurðarkrafan orðin 120 millj. kr. og síðan á að skila 22 millj. kr. til baka í breytingartillögunum, og með einhverjum óljósum hætti, sem stendur ekki í frumvarpinu, ætlar ráðuneytið að láta 40 millj. kr. renna til stofnunarinnar eða um 60 millj. kr. Eftir standa 60 millj. kr. sem er 10 millj. kr. lægra en upphaflega krafan. Þetta er einfaldlega of langt gengið.

Það mætti líka nefna Heilbrigðisstofnun Austur-Skaftafellssýslu á Hornafirði sem hefur verið með þjónustusamninga, sem eru það módel sem ríkið reyndi að troða í gegn með fjárlögum á síðustu árum, einhverri nýrri stefnu. Engu að síður hefur verið skorið þar niður trekk í trekk þrátt fyrir að fyrir liggi þjónustusamningur til í það minnsta 15 ára. Væntanlega hefði átt að vera búið að finna út hver kostnaðurinn væri við þá grunnþjónustu sem hugmyndin væri að veitt yrði á landsbyggðinni.

Komið hefur verið inn á hjá hv. þingmönnum að Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja er ein þeirra sem verður verst úti í niðurskurðinum ásamt Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík sem ganga enn lengra en þetta. Það er augljóst, frú forseti, að við verðum að stöðva þetta og milli 2. og 3. umr. verður fjárlaganefnd að fara yfir þetta. Ég geri hreinlega þá kröfu að 1,5% niðurskurður verði látinn duga og öllu öðru ýtt út af borðinu.

Landspítalinn – háskólasjúkrahús og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hafa líka þurft að sæta þessum niðurskurði. Þar er áætlað að um 140 millj. kr. komi aftur til Landspítalans og þá verður niðurskurðurinn þar um 1% eða tæplega það og er örugglega meira en nógu erfitt fyrir þá að standa við það. En það verður að gera þá kröfu að gengið verði með jöfnuði yfir þetta kerfi og ekki verði gengið lengra. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að ganga svona langt.

Mig langar aðeins að minnast á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég hefði gjarnan viljað ræða við hæstv. innanríkisráðherra og fjárlaganefndarmenn um aukaframlagið, hver staðan væri á því og hvers væri að vænta við 3. umr. um það. Fram hafa komið hugmyndir um að taka stóran hluta af aukaframlaginu frá næstverst stöddu sveitarfélögunum og færa til þess verst stadda, Álftaness, en það er aðferð sem gengur ekki upp. Mörg sveitarfélög hafa í langan tíma verið í tekjusvelti. Það er ekki vegna þess að þau skuldi of mikið og það er ekki vegna þess að reksturinn sé í ólagi heldur einfaldlega vegna þess að tekjur skortir, meðal annars vegna fólksflutninga af svæðinu. Þessi tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga er gamalt vandamál sem hefði kannski átt að vera búið að taka upp fyrir margt löngu en var ekki gert á góðærisárunum vegna þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og á þenslusvæðunum höfðu umtalsverðar tekjur af því að versla með lönd á meðan þau sveitarfélög sem ég var að nefna áðan, t.d. Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og ýmis önnur dreifbýlissveitarfélög, hafa um langa hríð ekki haft nægilegar tekjur til að standa undir lögboðinni þjónustu. Þetta er eitthvað sem við þyrftum að ræða líka í 3. umr., að búið sé að tryggja þetta.

Ég hefði viljað ræða aðra hluti en gef mér ekki tíma í það, enda hafa aðrir farið ágætlega yfir þá, t.d. safnliðina og þær reglur sem að því lúta. Mér sýnist að þær muni á fyrsta ári sanna það sem við framsóknarmenn höfðum margir hverjir óttast að þetta væri klúður, að verið væri að færa aukið fjárveitingavald til ráðuneytanna en ekki í faglegra kerfi eins og til var ætlast.

Ég var búinn að minnast á skógarbændur, hvers þeir ættu að gjalda. Mig langar aðeins að nefna í sambandi við heilbrigðiskerfið að reynslan hefur sýnt að við þennan niðurskurð, ekki síst á landsbyggðinni, hefur orðið gríðarleg færsla ekki síst á verkefnum frá heilsugæslunni og frá sjúkrahúsum á landsbyggðinni til einkarekinna stofa á höfuðborgarsvæðinu. Ég heyri það á hæstv. velferðarráðherra, og má líka vitna í álit velferðarnefndar, að menn hafa áttað sig á því að þessi stefna er kolröng og það þarf að snúa af henni. Það gengur ekki að nota niðurskurðartíma til að koma í gegn hugmyndum einhverra ráðuneytismanna um það hvernig heilbrigðiskerfið eigi að líta út. Það eru lög í landinu um heilbrigðisþjónustu og eftir þeim verðum við að fara og tryggja grunnþjónustu um land allt. Það er ein af forsendunum.

Ég nefndi fyrr í ræðu minni að skattstefna í landinu gagnvart atvinnufyrirtækjum væri ekki vinsamleg. Má nefna hugmyndir um kolefnisskatt þar sem tvískatta átti fyrirtæki, annars vegar að taka upp kerfi Evrópusambandsins, svokallað ETS-kerfi, og hins vegar Effort Sharing kerfi á þau fyrirtæki sem ekki hafa losunarheimildir eða ekki er hægt að mæla útblástur frá. Þá átti að fara að leggja kolefnisskatt á innflutning á hrávöru, á hráefni til iðnaðar. Það sáu allir að þetta væri endemis þvæla en þó var það ekki í fyrsta sinn sem ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra reyndu að koma með þetta inn í þingið. Nú virðist vera búið að henda því út en enn skortir á skýrar yfirlýsingar frá hæstv. fjármálaráðherra um að búið sé að leggja þetta til hliðar, að menn þurfi ekki að óttast að þetta komi hingað inn aftur í fjárlagafrumvarpsgerð á næsta ári.

Ég ætla í lokin að minnast á álit 2. minni hluta í atvinnuveganefnd þar sem fjallað var um þær stofnanir sem heyra undir atvinnuveganefndina og eru þá annars vegar hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og hins vegar hjá iðnaðarráðuneytinu, ég ætla að fara yfir það í mjög stuttu máli. Matvælastofnun hefur til dæmis ekki fengið nægilegt fé til að innleiða mjög flóknar Evrópureglur, m.a. um matvælalöggjöfina, en gerð er á hana veruleg hagræðingar- og niðurskurðarkrafa eins og alla aðra. Ekki hefur verið tekið tillit til þess að verið er að innleiða mjög flóknar reglur sem hafa útheimt mikla vinnu hjá starfsmönnum og á sama tíma, frú forseti, er lögð á þessa stofnun gríðarleg vinna við Evrópusambandsaðildarviðræðurnar. Í fyrra kom fram hjá forsvarsmönnum stofnunarinnar og ráðuneytinu að fjóra til fimm starfsmenn þyrfti í Matvælastofnun til að sinna þeim verkefnum einum fyrir utan önnur verkefni. Ekki fékkst fjárveiting til þess þannig að þessi verkefni hafa verið forgangsverkefni og önnur verkefni hafa þar af leiðandi annaðhvort verið látin bíða eða þá að starfsmenn hafa unnið með auknu álagi kvöld og helgar að því að láta stofnunina ganga. Það sama mætti segja um Fiskistofu. Þar var reyndar talað um eitt til tvö ársverk en þrjú til fjögur hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sjálfu. Ekkert af þessu hefur orðið að veruleika og hefur álag á stjórnsýsluna þar af leiðandi verið gríðarlegt.

Nú heyrst að taka eigi inn alls kyns peninga frá Evrópusambandinu til að leysa þennan vanda, taka á málum sem við höfum ekki sinnt eða fengið undanþágur frá vegna þess að við höfum ekki haft þörf á því og eins má kannski segja að sumar greiðslurnar séu til að milda ásýnd Evrópusambandsins á Íslandi.

Fyrr á tímum þegar deilur stóð um NATO og dvöl Bandaríkjahers hér kom fram stefna sem kölluð var aronska. Það var stefna um að taka gjald fyrir veru Bandaríkjahers hér, einhvers konar leigugjald fyrir aðstöðu. Nú má spyrja hvort hér sé að koma inn ný tegund af aronsku, frú forseti, þar sem hér á að fara að taka við fé af Evrópusambandinu til að setja inn í kerfið til að við fáum tekjur af því að við séum í aðildarviðræðunum. Slíkar heimildir eru því miður í fjárlagafrumvarpinu sem og aðrar hugmyndir. En þetta er svolítið sérstakur vinkill á þessum aðildarviðræðum.

Í sambandi við Hafrannsóknastofnun hefur komið fram að þar hefur verið verulegur niðurskurður eins og hjá öðrum stofnunum sem hefur leitt til þess að starfsfólki hefur fækkað og verkefni hafa orðið smærri í sniðum. Sparnaðurinn hefur kannski fyrst og fremst legið í því að úthaldsdagar rannsóknarskipanna hafa verið færri og það þýðir bara eitt að til lengri tíma, til framtíðar, höfum við minni gögn til að byggja á um nýtingu á þeirri auðlind sem við ætlum að byggja á til hagvaxtar um langt árabil.

Það má nefna að til að mynda í tilviki Hafrannsóknastofnunar voru um 80 millj. kr., ef ég man rétt, af auknum olíukostnaði, hann hefur aukist um 53% á liðnum árum, en ekki er tekið tillit til þess og það kemur fram í því að menn verða að skera niður þar sem útgjöldin vegna olíunnar eru mest. Þetta er gríðarleg upphæð hjá einni stofnun.

Nokkur umræða varð um ýmsa þætti tengda iðnaðarráðuneytinu. Mig langar að nefna tvennt. Annars vegar húshitunarniðurgreiðslur sem við þurfum nauðsynlega að fara yfir — og væri þörf á að ræða hvernig við gerum það. Það gengur ekki að hafa það í því formi sem við höfum haft. Bilið á milli niðurgreiðslnanna og síðan verðs hjá þeim sem best hafa hefur stækkað gríðarlega. Við verðum að skoða hvort rétt sé að horfa á þetta sem niðurgreiðslur vegna húshitunar eða hvort við eigum að fara að horfa á þetta sem jöfnun búsetuskilyrða um land allt.

Hins vegar langar mig að nefna snertir líka raforkuna, það er verð til stórnotanda annarra en stóriðju, til að mynda til garðyrkju, sveitarfélaga eða stærri iðnfyrirtækja sem ekki eru í stóriðjuflokkinum. Það er óeðlilegt að þessi fyrirtæki hafi ekki sérgjaldskrá og það er óeðlilegt að ekki sé vilji til þess innan ráðuneytisins að ganga í það verk að laga það. Það hefur komið fram vilji í þinginu, ekki síst gagnvart garðyrkjunni, að skoða það og leysa en ekki hefur verið nægilegur vilji í ráðuneytinu til að klára það mál.

Ég held að ég láti þessu lokið, hægt væri að ræða fjölmörg önnur atriði. En ég ítreka að áhugavert væri að endurskoða formið á þessari umræðu þannig að hún taki ekki 15 klukkustundir í einni striklotu án þess að hægt sé að ræða við fagráðherra eða ýmsa fjárlaganefndarmenn sem maður hefði hugsanlega áhuga á.