140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[06:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir ræðuna. Ég ætla að spyrja hann um tvennt sem hann nefndi og ég staldraði við þegar hann var með tölulegan samanburð á velferðarráðuneytinu miðað við árið 2007 og svo árið í ár, og gat sérstaklega þess mismunar sem var á útgjöldunum annars vegar 2007 og hins vegar fyrir árið 2012. Þegar hann var búinn að taka frá vaxtakostnaðinn þá var prósentan sú sama sem var verið að setja inn í þetta ráðuneyti. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi tekið tillit til þess að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012 eru um 10% af útgjöldum til ráðuneytisins atvinnuleysisbætur, sem gæti hugsanlega skekkt myndina töluvert, og umboðsmaður skuldara með um 1 milljarð til viðbótar, af þessum 225 milljörðum sem fara í þetta ráðuneyti. Mig langar að spyrja hvort hann hafi skoðað það sérstaklega eða hvort það hafi verið inni í þessum tölum hjá hv. þingmanni.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann hver skoðun hans sé á svokölluðum sérstökum vaxtabótum sem eru um 1.400 millj. kr. og eiga að leggjast á lífeyrissjóðina en eru tekjufærðar hjá ríkinu, sem er reyndar ekki búið að ganga frá samkomulagi um og ég tel dálítið varhugavert að gera vegna þess að það stóð líka til að gera það í fjárlögum 2011 en það gekk ekki eftir. Sérstaklega í ljósi þess kalla ég eftir því hjá hv. þingmanni að opinberu sjóðirnir borga hluta af þessu og þegar skuldbindingin sem ríkissjóður er með nú þegar og vantar inn í opinberu sjóðina er í kringum 400 milljarðar. Finnst honum ekki að það þurfi að skoða aðeins betur eða ræða það efnislega hvort skynsamlegt sé að gera þetta á þann hátt að tekjufæra vaxtabæturnar en bæta í raun og veru við halann í hina áttina?