140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[06:53]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir andsvarið. Að sjálfsögðu eru atvinnuleysisbætur og útgjöld vegna þeirra mála í velferðarráðuneytinu í bæði skiptin, að sjálfsögðu, enda væri óeðlilegt að undanskilja þær. Það er hluti af málunum á báðum vængjum, bæði fyrir árin 2007 og 2011.

Það sem ég vakti athygli á var að þessi hluti útgjalda, sem sagt sem hlutfall af heildarútgjöldum, er að halda sér þrátt fyrir gríðarlega vexti og þrátt fyrir atvinnuleysi því að við höfum vissulega aukið til dæmis rétt atvinnulausra, við höfum bætt í desemberuppbót, lengt veikindarétt og lengt sem sagt í endann. Útgjöldin eru auðvitað meiri en þau voru árið 2007, þ.e. miðað við einn atvinnulausan. Að sjálfsögðu eru þessar tölur þar inni. En það að við skulum þurfa að eyða og komast ekki undan því að borga 80 milljarða í vexti er eiginlega það versta sem mér finnst í allri þessari vinnu og sárast að þurfa að horfa á þá tölu og líklega mun sú tala hækka á næstu árum. Það er ekki ólíklegt að sú tala muni hækka á næstu árum, kannski ekki sem hlutfall en jú, kannski örlítið sem hlutfall af útgjöldum en samt ekki alveg en vera nokkurn veginn á þessum stað, svona um 14–14,5% af heildarútgjöldunum í allra næstu framtíð, því miður.

Varðandi sérstöku vaxtabæturnar, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, er verið að ræða um hlut lífeyrissjóðanna í því og má hafa langa tölu um það. Ég er mjög óánægður með aðkomu lífeyrissjóðanna að sérstöku vaxtabótunum og ég ætla að bíða, ég sé að ég er búinn með tímann, með það þangað til í seinna andsvari.