140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[06:57]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði um mikilvægi þess að geta lokað þessu gati, þ.e. að við rekum ekki ríkissjóð með halla. 21,5 milljarðar er sú áætlun sem við leggjum upp með næsta ár. Það gæti orðið meira, ég skal viðurkenna það fúslega. Það eru óvissuþættir sem við gætum fengið að glíma við en þetta eru þó 10% af því sem við lögðum af stað með í halla árið 2009, í byrjun árs. Það er talsvert annað að reka ríkissjóð með þetta litlum halla, ég tala nú ekki um það sem var hérna áður sem var náttúrlega algerlega ógerlegt og hefði klárað okkur á örfáum árum. Þetta er samt of mikið. Við eigum ekki að reka ríkið með halla, við eigum ekki að gera það. Það er dýrt og er sóun á fjármunum. Þess vegna erum við að reyna að miða við þá stærð, sem virðist fara í taugarnar á einhverjum í þessum sal, sem heitir frumjöfnuður, þ.e. það sem reksturinn skilar okkur til að geta farið að greiða vexti, sem sagt hvað við fáum til að geta farið að borga niður vexti sem við verðum að losna við. Þess vegna er það engin aukastærð eða einhver millistærð í rekstrartölum. Þetta er það sem við verðum alltaf að miða við og þetta er það sem efnahagsáætlunin miðaði í raun og veru að, hvenær við mundum ná þeirri stöðu í ríkisfjármálum að geta farið að skila peningum upp í vaxtakostnað. Meðan við getum það ekki, meðan við náum því ekki er það vonlaust verk. Ef við náum aldrei að fara að greiða niður vextina er það vonlaust verk og þá munum við lenda í verulegum vandræðum svo vægt sé til orða tekið.