140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[07:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu fram í hádegið en langar samt að minnast á tvennt í ágætri ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar sem ég get tekið undir að stærstu leyti.

Það er varðandi sveitarfélögin. Það hefur verið talað talsvert um að ríkið sé að koma ansi illa fram við sveitarfélögin á ýmsum sviðum en það er sjaldnar talað um það hvað ríkisvaldið er þó að gera til að létta undir með sveitarfélögunum. Þannig er rétt að benda á að sveitarfélögin hafa notið góðs af ýmsum aðgerðum sem ríkisstjórnin og Alþingi eða löggjafarvaldið hefur gripið til, til dæmis varðandi skattahækkanir þar sem sveitarfélögin fá ákveðinn hluta þeirra tekna til sín, m.a. í gegnum jöfnunarsjóð. Við tökum á okkur óvinsældirnar en þau fá bónusinn í gegnum það. Sveitarfélögin hafa sömuleiðis fengið auknar tekjur vegna útgreiðslu úr séreignarsparnaði sem er auðvitað aðgerð sem hefur verið gripið til af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaganna held ég að hafi heppnast ágætlega vel, enda hef ég ekki heyrt nokkurn mann kvarta yfir því. Ég held að það hafi gengið mjög vel hvað það varðar og sveitarfélögin notið góðs af því. Leyst hefur verið áratuga gamalt deiluefni á milli ríkis og sveitarfélaga varðandi tónlistarnám á framhaldsskólastigi með ágætishætti sem er ásættanlegur og fleira er í farvatninu hvað þetta varðar. Sveitarfélögin hafa líka notið góðs af því, þ.e. þau hafa ekki þurft að fá þá sem hafa dottið út af atvinnuleysisbótum á sína framfærslu vegna aðgerða sem við höfum gripið til með því að lengja í möguleikum fólks til að vera atvinnulaust í meira en ár o.s.frv. Sveitarfélögin hafa því notið góðs af mörgu sem við höfum gripið til og vandi þeirra er þó tiltölulega lítill af heildarvandanum á móti því sem ríkið er að fást við.