140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[07:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði og ég hef reyndar margoft sagt í þessum ræðustól að samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa skánað á undanförnum árum. Ég þekkti það mjög vel sem sveitarstjórnarmaður að þegar menn reyndu að færa málaflokka á milli ríkis og sveitarfélaga voru menn mjög brenndir af því að þegar tekin höfðu verið yfir ákveðin verkefni var alltaf reynt að semja um þau með þeim hætti að negla niður alveg upp á krónu og helst aur hvernig það ætti að vera.

Það sem gerðist hins vegar núna við flutning á málefnum fatlaðra var að menn stigu þau skref sem í raun gerðu það að verkum að menn höfðu traust á verkefnum hvor annars. Sveitarfélögin hræddust alltaf að þeir fengju verkefnið og svo fengju þeir kvaðirnar og þá rifjaðist upp fyrir mönnum grunnskólinn, en það sem gerðist við yfirfærslu á málefnum fatlaðra var að menn urðu sammála. Ég hafði reyndar rætt það í mörg ár af hverju menn gætu ekki sest niður og samið um að færa til ákveðin verkefni, eins og til dæmis í þessu tilfelli málefni fatlaðra. Síðan mundu menn meta eftir einhvern ákveðinn tíma hver væri í raun og veru kostnaður sveitarfélaganna við að yfirtaka verkefnið og þá yrði það bara leiðrétt sem menn sömdu um ef einhver skekkja væri í því og á hvorn veginn sem það væri. En menn voru alltaf svo fastir í þeim farvegi að semja nákvæmlega upp á krónu og aura og þá vantaði nákvæmlega þetta traust og menn voru brenndir. Þá voru menn alltaf í einhverju svona bixi þegar verið var að laga þetta og færa til og þá fór þetta yfir í jöfnunarsjóðinn og það skildi aldrei nokkur einasti maður hvernig viðkomandi sveitarfélagi eða landshluta var bætt upp það sem hallaði á milli. Ég tek undir þetta.

Síðan vil ég líka nefna að ný sveitarstjórnarlög sem voru samþykkt í vor voru unnin í mjög góðu samstarfi við sveitarfélögin og forustumenn þeirra og ég hef ekki heldur (Forseti hringir.) heyrt í neinum sveitarstjórnarmanni sem hefur verið ósáttur við þau lög.