140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[07:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður tekur undir þá gagnrýni sem ég setti fram hér strax á árinu 2009 á þennan fyrir fram greidda skatt. Þetta er ekki skynsamleg aðgerð. Þetta gagnrýndi ég líka harðlega vegna þess að ríkisstjórnin samdi við stóriðjufyrirtækin um að greiða fyrir fram greiddan skatt árin 2010, 2011 og 2012 og byrja svo að greiða til baka þegar kjörtímabilinu lyki. Þetta er ekki gott fordæmi hvorki núna né nokkurn tíma seinna.

Aðalatriðið í þessu og það sem var feillinn, þar sem menn höfðu líka verið að ræða um atvinnuuppbygginguna og skilaboðin inn í erlenda fjárfestingu, og mér fannst vera mestu mistökin þegar þetta gerðist var að menn settu fram eitthvað sem þeir voru ekki búnir að hugsa, þ.e. að ætla að innheimta 16 milljarða, og þá fór allt í panik. Síðan gerist hvað? Þetta gerist aftur núna og aftur er hæstv. fjármálaráðherra gerður afturreka með þetta og það er dregið hér út með töngum hvort eigi að fresta þessu eða hvort búið sé að slá þetta af. Ég held að þetta séu ekki góð vinnubrögð og eiginlega mjög dapurleg.

Síðan verð ég að viðurkenna að mér finnst oft og tíðum þegar verið er að tala um að þessi eigi að gera meira og hinn eigi að gera meira og þar fram eftir götunum, að þá sé aðalatriðið þetta: Í fyrsta lagi verður að virða þá samninga sem eru gerðir og svo geta menn haft alls konar skoðanir á þeim. Í öðru lagi vil ég nefna það að mér finnst stundum, þó að ég sé ekki að halda því fram að hv. þingmaður hafi gert það, hvorki í þessari umræðu né áður, að menn tali oft dálítið niður til þessara fyrirtækja. Ég veit bara hversu mikilvæg þessi fyrirtæki eru fyrir atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Ég held að við verðum, sumir alla vega, að fara að tala með ábyrgari hætti en gert hefur verið, því að mjög margir og eiginlega allt of margir tala niður til þessara mikilvægu fyrirtækja í samfélaginu.