140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

ráðherranefnd um breytingu á stjórn fiskveiða.

[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft og skylt að svara þessari fyrirspurn. Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar að skipa sérstaka ráðherranefnd í málið. Það er alvanalegt að settar séu ráðherranefndir í mál, ekki síst stærri mál sem flokkarnir þurfa að ráða ráðum sínum. Um er að ræða heimild samkvæmt nýjum stjórnarráðslögum, þar er kveðið á um skipan slíkrar nefndar. Sá sem veitir nefndinni forstöðu er velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson og í henni situr líka mennta- og menningarmálaráðherra. Þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar var fylgt eftir þar sem kynnt var niðurstaða ríkisstjórnarinnar og nefndinni sendar vinnureglur sem ráðherranefndir starfa eftir og hafa um nokkurn tíma verið til vinnureglur um það. Ráðherranefndir voru reyndar til áður en stjórnarráðslögin voru samþykkt en þær fengu ákveðna formfestu með nýjum stjórnarráðslögum.

Ekki er algengt að setja erindisbréf með slíkum ráðherranefndum en því hefur verið fylgt eftir til þessara tveggja ráðherra. Þau hafa haldið tvo fundi um málið síðan ráðherranefndin var skipuð, annan með hæstv. sjávarútvegsráðherra og hinn með fulltrúum sjávarútvegsráðuneytisins þar sem farið var yfir þau drög sem unnin voru hjá sjávarútvegsráðherra í þessu máli.