140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fangelsismál.

[15:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. ráðherra sömu spurningar og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði áðan en væntanlega hefur hæstv. innanríkisráðherra sagt eitthvað sem engum kemur við en það er að hann styðji hæstv. ráðherra Jón Bjarnason. Ég ætla að spyrja hann að allt öðru og það snýr að fangelsismálum. Eftir því sem ég best veit og hefur komið fram í fjölmiðlum tilkynnti hæstv. innanríkisráðherra þjóðinni það að reisa ætti fangelsi á Hólmsheiði.

Nú er, eftir því sem ég best veit, er hins vegar búið að henda öllum slíkum hlutum út af borðinu í meðförum meiri hluta fjárlaganefndar. Ég vil spyrja hæstv. innanríkisráðherra frétta af þessu máli. Hvernig stendur á því að hæstv. innanríkisráðherra tilkynnir þetta sem samþykkt ríkisstjórnarinnar en síðan ganga hv. þingmenn stjórnarliðsins í berhögg við yfirlýsingu hæstv. innanríkisráðherra og taka fangelsið út af borðinu? Ég held að það væri mjög æskilegt ef hæstv. innanríkisráðherra mundi útskýra þetta fyrir þingi og þjóð.