140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fangelsismál.

[15:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það skal ég gera með mikilli ánægju. Við erum að reyna að taka upp breytt vinnubrögð á Alþingi og virða það að eitt er framkvæmdarvald, annað er löggjafarvald og síðan fjárveitingavald. Framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin, setur fram tillögu sína sem er mjög skýr til þingsins. Hún snýr að því að reist verði nýtt fangelsi á Hólmsheiði í landi Reykjavíkurborgar. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi undir lok ágústmánaðar.

Síðan tekur Alþingi, löggjafar- og fjárveitingavaldið, við þessu viðfangsefni og það er ekkert óeðlilegt við það að fjárlaganefnd þingsins vilji skoða þetta verkefni vel. Þetta er dýrt, kostar mikla peninga og menn vilja fara rækilega í saumana á málinu. Ég hef fulla trú á því að þessi tillaga ríkisstjórnarinnar sem er skýr og afdráttarlaus muni ná fram að ganga.

Mér er sagt að í morgun hafi verið ágætir fundir í fjárlaganefnd Alþingis þar sem farið var yfir þessi mál og mér er sagt að menn sem hafi haft efasemdir um ágæti þessarar framkvæmdar hafi sannfærst um að hér sé hið besta mál á ferðinni þannig að ég hef trú á því og vonir mínar standa til þess að þetta verði samþykkt í fjárlögum frá Alþingi þegar upp er staðið.