140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna.

[15:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi segja, vegna umræðunnar sem hér var um sjávarútvegsmál, að það mál er vitanlega alveg furðulegt. Fyrst var skipuð sáttanefnd til að fjalla um sjávarútvegsmálið og reyna að breyta því. Síðan var gert frumvarp í sjávarútvegsráðuneytinu sem stjórnarflokkarnir tættu í sig og nú skilaði hópur inn tillögum til að reyna að höggva á hnútinn. Búið er að gera þrjár tilraunir en þetta stoppar alltaf á hæstv. forsætisráðherra að mér sýnist.

Síðan vil ég velta því upp, af því að menn hafa haft áhyggjur af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hvort ekki sé nær að hafa áhyggjur af stuðningi flokksmanna Vinstri grænna við formann Vinstri grænna. Ég fæ ekki betur séð en hæstv. fjármálaráðherra hafi fengið þremur fleiri atkvæði í formannskjöri en sem nemur fjölda þeirra sem lýsa yfir stuðningi við Jón Bjarnason í heilsíðuauglýsingu. (Gripið fram í: Það er rétt.) Er það ekki áhyggjuefni fyrir Vinstri græna? Ég hef ekki áhyggjur af því. Jú, ég hef áhyggjur af því vegna þess að ég held að Jón Bjarnason eigi frekar skilið stuðning en hæstv. fjármálaráðherra.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um þær undirskriftir sem ráðherrann fékk afhentar 1. október, 33.525 undirskriftir sem Hagsmunasamtök heimilanna höfðu safnað þar sem krafist er almennrar leiðréttingar á húsnæðislánum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur gerst í framhaldinu? Ég veit að 7. október afhentu Hagsmunasamtök heimilanna ráðherranum viljayfirlýsingu sem þau óskuðu eftir að yrði staðfest og undirrituð um framhald vinnunnar við þetta mál. Það var hins vegar ekki gert. Ég sakna þess svolítið að heyra ekki frá hæstv. forsætisráðherra og ráðuneyti hennar. Hvað er verið að gera varðandi þessa málaleitan og áskorun sem 33 þús. einstaklingar skrifuðu undir? Við hljótum að vilja fylgja eftir þessari almennu kröfu, frú forseti, sem svo margir skrifa undir og sem ég fullyrði að stuðningur hafi vaxið við meðal þingmanna, og að ráðherrann skýri okkur frá því hvernig (Forseti hringir.) vinnunni er háttað í dag.