140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við göngum til atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarp eftir 2. umr. þess á þingi. Fjárlaganefnd hefur haft þetta mál til umfjöllunar frá því að það var lagt fram á þingi í byrjun október og fjallað um það mjög ítarlega, tekið við fjölda gesta og umsagna varðandi einstök mál frumvarpsins og afgreitt það í þann búning sem það er í í dag. Ég tel að fjárlaganefnd hafi unnið verk sitt vel og sé að leggja fram vel vandað mál til atkvæðagreiðslu fjárlaga næsta árs.

Fjárlaganefnd leggur sjálf fram fjölmargar breytingartillögur við frumvarpið sem flestar snúa að heilbrigðis- og velferðarmálum auk fleiri mála sem sjá má á breytingaskjali frá meiri hluta fjárlaganefndar. Fjárlaganefnd mun halda áfram umfjöllun um málið á milli 2. og 3. umr. og beina sjónum sínum hér eftir sem hingað að heilbrigðis- og velferðarmálum og reyna að draga enn frekar úr þeim niðurskurði sem boðaður er í frumvarpinu eins og það lítur út í dag.

Ég vil þakka öllum fjárlaganefndarmönnum fyrir þá vinnu sem þeir hafa innt af hendi sem og starfsmönnum fjárlaganefndar sömuleiðis fyrir það sem þeir hafa lagt af mörkum.