140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er meðal annars verið að leggja til sérstakan launaskatt á fjármálafyrirtæki. Það hefur komið skýrt fram hvaða afleiðingar hann mun hafa. Í umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar hefur komið skýrt fram að sparisjóðir eiga ekki von eftir þennan skatt. Það hefur líka komið fram að kvenfólk mun missa vinnuna, þetta mun skekkja samkeppnisstöðuna, það verður erfiðara fyrir innlenda aðila að keppa við erlenda, litla að keppa við stóra og erfiðara fyrir eftirlitsskylda að keppa við óeftirlitsskylda.

Virðulegi forseti. Ýmsir hv. stjórnarþingmenn hafa talað mjög í þá átt (Forseti hringir.) að þeir vilji sjá hér sparisjóði. Ég tel að menn eigi bara að tala skýrt. Þessi skattur þýðir að hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) vill ekki sparisjóði á Íslandi.