140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er meðal annars verið að greiða atkvæði um eignarskatt, eignarskatt sem gefið var nafnið auðlegðarskattur af hæstv. ríkisstjórn. Ég vil upplýsa hv. þingmenn um það hvaða upplýsingar við fengum um afleiðingar þessa skatts í meðförum nefndarinnar. Fyrir nefndina komu endurskoðendur sem fóru yfir það að nú flýja tugir einstaklinga land út af þessum skatti. Við þurfum þá ekki að hafa lengur áhyggjur af því fólki, það greiðir ekki skatta hér á landi, það mun greiða skatta annars staðar.

Það kom líka fram að fólk þarf að selja eignir til að fjármagna þennan skatt vegna þess að hann hefur þá sérstöðu að hann er á eignir en ekki á tekjur. Svona skattar eru ekki einu sinni til í kennslubókum um skatta. Hann kemur líka í veg fyrir það, virðulegi forseti, og það kom fram hjá Kauphöllinni, að félög séu skráð í Kauphöllinni. Það ætla ég að sé þvert á þau markmið sem hv. þingmenn eru alla jafna sammála um.