140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita ríkir mikil óánægja með þau fjárframlög sem ætluð eru til framhaldsskólanna í landinu. Við sem höfum rætt við forsvarsmenn þessara skóla höfum orðið vör við að þeir telja að með þessari afgreiðslu geti orðið mikil vá í ýmsum skólum landsins. Ég hefði því búist við því að hv. meiri hluti fjárlaganefndar mundi birta okkur breytingartillögur líkt og er að gerast í heilbrigðismálunum en því er ekki að heilsa. Menn hafa bent á að ekki sé tekið tillit til mjög margra atriða þegar fjárveiting til framhaldsskólanna er ákvörðuð, svo sem hækkandi starfsaldurs sem leiðir til minni kennsluskyldu, sérstöðu verknámsskólanna, sérstöðu svæða þar sem fólksfækkun hefur orðið og þar með nemendafækkun og þannig mætti áfram telja.

Hættan er sú að ef þetta mál verður afgreitt með þessum hætti endanlega frá Alþingi muni það draga mjög úr námsframboði hjá ýmsum skólum, sérstaklega á landsbyggðinni, sem mun leiða til þess að nemendur á þeim svæðum leita annað eftir námi sem aftur veikir þá skóla meira. (Forseti hringir.) Ég vil þess vegna hvetja meiri hluta fjárlaganefndar til að taka þessi mál sérstaklega til endurskoðunar milli 2. og 3. umr.