140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Sá liður sem hér um ræðir gefur tilefni til að vekja athygli á frumvarpinu eins og það liggur fyrir og þeirri stefnumörkun sem kemur fram í greinargerð með því. Þar er tiltekið að aukaframlagið hafi verið sett inn sérstaklega til að mæta erfiðleikum fjárhagslega veikra sveitarfélaga vegna áhrifa bankahrunsins á fjárhag þeirra. Þetta er algerlega nýr skilningur, algerlega nýr. Jafnframt er boðaður frekari niðurskurður á framlaginu.

Samband sveitarfélaga hefur mótmælt þessu harðlega því aukaframlagið er stór liður í tekjum fámennari sveitarfélaga sérstaklega og fjárhagslega veikra. Það er alveg ljóst að ef þessi stefnumörkun gengur eftir mun á stórum svæðum landsins verða uppi sá veruleiki að sveitarfélögum verður illa fært að halda úti þeirri velferðarþjónustu sem þeim er uppálagt að veita samkvæmt lögum.