140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar er verið að breyta algerlega um kúrs hvað varðar aukaframlag jöfnunarsjóðs. Það hefur alla jafna verið hugsað í þeim tilgangi að jafna til þeirra sveitarfélaga sem hafa mátt glíma við mikla fólksfækkun á undanförnum árum. Nú er sú breyting gerð að stór hluti af aukaframlaginu á að renna til þess að bjarga sveitarfélögum sem glíma við fjárhagsvandræði vegna bankahrunsins. Eftir sitja þau sveitarfélög sem glíma við fólksfækkun. Þar er um að ræða 25–30 sveitarfélög víðs vegar um landið sem ljóst er að hafa sótt verulega mikið fjármagn til þessa aukaframlags. Það verður mjög erfitt fyrir þau að ná endum saman á næsta ári vegna þessarar breytingar.