140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika hversu þýðingarmikið þetta viðbótarframlag er fyrir einstök sveitarfélög. Þó nokkur þeirra hafa fengið allt að 5% af tekjum sínum í gegnum viðbótarframlagið. Sú ákvörðun var tekin, eins og hér hefur verið rakið, að breyta útlánareglunum á þessu ári og það hefur auðvitað haft heilmikla tilfærslu í för með sér. Jafnframt var ákveðið af hálfu ríkisstjórnarinnar að helmingi af þeim fjármunum, sem veittir yrðu til viðbótarframlagsins, yrði síðan ráðstafað til eins skuldugs sveitarfélags. Það má því segja að menn hafi verið að velta byrðunum af skuldum eins sveitarfélags yfir á þau næstskuldugustu. Þetta er mjög sérkennileg stefnumótun og ber ekki vitni um mjög mikla réttlætiskennd.

Síðan er haldið áfram og höggvið í sama knérunn með þeirri stefnumótun sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og er sú að hverfa frá viðbótarframlaginu og svipta þannig þessi litlu veikburða sveitarfélög mjög mikilvægum tekjustofni sem nemur í einstökum tilvikum (Forseti hringir.) allt að 5% af heildartekjum þeirra.