140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við erum að greiða atkvæði um mál sem tengjast m.a. velferðarráðuneytinu. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því sem segir í nefndaráliti frá velferðarnefndinni um að miklar skerðingar á fæðingarorlofsgreiðslum 2009 og 2010 hafi haft mikil áhrif á töku feðra á fæðingarorlofi. Enn og aftur er ekki vakin athygli á þessu mikla jafnréttismáli núna í meirihlutaáliti fjárlaganefndar. Enn og aftur stöndum við frammi fyrir skerðingum á Fæðingarorlofssjóði.

Á landsfundi Samfylkingarinnar talaði formaður Samfylkingarinnar fjálglega um að nú þyrfti að spýta í, nú þyrfti að líta til framtíðar og efla fæðingarorlofið, en þess sér hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er í þriðja eða fjórða sinn sem orlofið er skert. Stefnan liggur fyrir. Það er bakslag í jafnréttismálum, bakslag í því hversu mikil réttindi menn geta fengið í gegnum Fæðingarorlofssjóð. Það er miður að sjá þessa stefnumörkun sem vinstri menn hafa staðið fyrir.