140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér liggur fyrir tillaga sem er hluti af þeirri breytingartillögu sem 1. minni hluti fjárlaganefndar og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins flytja. Við erum mjög ósátt við þann niðurskurð sem boðaður er í frumvarpinu og teljum þá tillögu sem meiri hlutinn stendur að vissulega skref í rétta átt en alls ekki ganga nægilega langt.

Við höfum lagt til að menn setji þetta í þann farveg að gefa sér um það bil tvö ár til að koma saman einhverri vitlegri stefnu varðandi samdrátt í fjárveitingum til heilbrigðismála. Við treystum því að á milli 2. og 3. umr. gefi menn sér þann tíma sem þarf til að ræða þetta í þaula og móta heildstæða stefnu til lengri tíma sem felst í því að setja stopp á það sem gert var í fjárlögum ársins 2011. Í trausti þess að það verði gert greiðum við ekki atkvæði gegn tillögunni sem hér liggur fyrir. Við munum sitja hjá við hana en treystum því (Forseti hringir.) að við fáum vitlega og skynsamlega umræðu á milli 2. og 3. umr. um þá tillögu sem hér liggur fyrir. Ég dreg til baka, forseti, breytingartillögur nr. 10–41 á þskj. 399 frá 1. minni hluta fjárlaganefndar til 3. umr.