140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:10]
Horfa

Árni Johnsen (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti Sú atkvæðagreiðsla sem hér er fram undan en er í raun kölluð til baka er aðeins sýnishorn af því sem um er að ræða í stóru samhengi. Herðingarhnykkir hæstv. ríkisstjórnar á heilbrigðiskerfi landsins ganga mjög harkalega og miðast frekar við að blóðmjólka en mjólka. Til að mynda er gengið sérstaklega hart að fjórum heilbrigðisstofnunum sem allar eru í Suðurkjördæmi: Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og Heilbrigðisstofnun Suðausturlands. Það verður að finna flöt á þessu því tvær þessara stofnana munu loka ef ekki verður greitt betur úr en ætlað er á blaðinu í dag. Byggðaleg staðsetning þeirra beggja er þannig að það verður að horfa til þess. (Forseti hringir.) Í trausti þess að hæstv. velferðarráðherra geri það er óhætt að lýsa því yfir að við greiðum ekki atkvæði á móti þessu eins og breytingartillögurnar eru en úr því þarf að bæta.