140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að „draga til baka“ ákvörðun um niðurskurðarkröfu á Landspítalann. Þessir fjármunir verða nýttir í biðdeild eða öldrunardeild á Landakoti. Það breytir því hins vegar ekki að Landspítalinn mun standa frammi fyrir umtalsverðum niðurskurði sem við vitum að verður ekki hægt að fara í nema með því að skerða þjónustu og fækka starfsfólki. Enn er fyrirhugað að loka St. Jósefsspítala og líknardeildinni á Landakoti, Sogni verður lokað og réttargeðdeildin færð yfir á Klepp, það verður engin endurnýjun á tækjum eða búnaði eins og mikið hefur verið kallað eftir og starfsfólkið þarf enn að taka á sig miklar persónulegar fórnir til að geta haldið uppi þjónustustiginu eins og það vill að það sé.

Klukkan hálfsex í morgun fór ég einmitt í gegnum stöðuna hjá heilbrigðisstofnununum. Það var að vísu fámennt í salnum. Hv. þm. Björn Valur Gíslason og forseti sátu undir þeirri ræðu og að sjálfsögðu félagar mínir hér til hliðar, (Forseti hringir.) þar sem ég fór nákvæmlega í gegnum það hvernig staðið er að niðurskurðinum í heilbrigðiskerfinu.