140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef vaxandi áhyggjur af stöðu Landspítalans. Eftir hrun er búið að skera niður á Landspítalanum um 20%. Að vísu var hægt að fara í ákveðna hagræðingu þar af því að búið var að spýta talsvert inn í það kerfi fyrir hrun en nú er búið að hagræða svo mikið að komið er að ákveðnum krossgötum. Ég tel mjög varasamt að skera meira niður á Landspítalanum. Ég tel reyndar líka að skerpa þurfi mjög áherslurnar varðandi nýbyggingu Landspítalans. Það felst mjög mikið hagræðingartækifæri í því að byggja nýjan Landspítala og ég tel að við eigum að halda áfram á þeirri braut.

Við þurfum að gera skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustunni og taka upp valfrjálst tilvísanakerfi svo að eðlilegt streymi verði á milli heilsugæslu og sérfræðiþjónustu. Þannig á að nást sparnaður sem hægt er að nýta í það sem nauðsynlegt er að gera; að verja þá grunnþjónustu sem við viljum veita í heilbrigðiskerfinu.

Ég sit hjá í þessari atkvæðagreiðslu.