140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér birtist okkur í hnotskurn það stefnuleysi og það ráðleysi sem ræður ríkjum í þessum málaflokki. Lagt er af stað með niðurskurðarhugmyndir eins og við kynntumst í fyrra sem hvorki standast né njóta stuðnings meiri hluta Alþingis. Enn er lagt af stað á þessu ári og lagðar fram tillögur sem hleypa öllu í uppnám. Síðan er reynt að bakka, eins og við sjáum á þessum breytingartillögum, en þó ekki að fullu. Allt er þetta mjög handahófskennt.

Ég ætla að nefna dæmi um Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki. Gert var ráð fyrir því að sú stofnun skæri niður um 63 millj. kr. Þegar velferðarráðuneytið fór að skoða þetta komst það að því að mögulega væri hægt að skera niður um 21 millj. kr. Engu að síður er niðurstaðan sú sem kemur fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar að skera eigi niður um 40 millj. kr. Með öðrum orðum, verið er að leggja til og segja þessari stofnun að ganga til verka í niðurskurði sem ýmist er talinn hæpinn eða ófær. Þetta eru skilaboðin, þetta eru vinnubrögðin. Þetta er auðvitað gersamlega ólíðandi.