140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:32]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það enduspeglast dálítið í atkvæðagreiðslunni núna í hvaða leik við erum. Hér er tillaga frá minni hluta fjárlaganefndar um að setja 13 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Blönduóss, en hún er kölluð aftur til 3. umr. Í næstu tillögu er lagt til að hækka framlagið um 13,9 millj. kr. en þeir sömu aðilar og fluttu tillögu um að það yrði 13 millj. kr. sitja hjá við hana. Þetta lýsir auðvitað því hvernig þetta er, því miður.

Auðvitað þarf að vinna þetta verk og ég tek undir það sem komið hefur fram að við hefðum þurft að geta gert það í eins mikilli sátt og hægt var. En það birtist ekki hér þar sem ótal tillögur eru fluttar um aukningar sem eru algerlega úr takti við þann veruleika sem við búum við vegna tekjuskerðingar. Heilbrigðismálin halda sem betur fer sínum hluta af tekjum, sínum hluta af vergri landsframleiðslu. Þegar við tökum inn tryggingarnar sem bættust við, bæði á árinu í ár og á næsta ári, er aukning í heildina. Þetta er erfitt, þetta er ekki auðvelt en (Forseti hringir.) það er ómaklegt að segja að það sé tilviljanakennt og ómaklegt að tala um einhvern hrylling.