140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hér er leitað heimilda með sama hætti og gert var í fjáraukalögum þessa árs til að ljúka uppgjöri við Landsbankann vegna sameiningar Sparisjóðs Keflavíkur, eða SpKef, og Landsbankans. Það er ljóst að á ríkið mun falla kostnaður vegna þeirrar yfirlýsingar sem bæði fyrri ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn gaf um að allar innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum yrðu tryggðar og enginn mundi tapa þeim þó að bankar kæmust í þrot.

Ekki hefur náðst samkomulag um verðmat á því lélega og laskaða eignasafni sem þarna liggur á bak við og er orðið minna virði en innstæðurnar sjálfar. Það er engum til að dreifa til að bæta þann mismun en ríkinu sjálfu sem gaf út þessa yfirlýsingu. Þetta er kostnaðurinn við að verja innstæður og sparifé Suðurnesjamanna, Vestfirðinga og Húnvetninga sem áttu í þessum sjóði. Enginn hefur mælt því bót að þetta fólk fái aðra meðhöndlun en aðrir sem átt hafa viðskipti við banka sem komist hafa í þrot. Þennan kostnað verðum við að taka á okkur hver sem hann verður en talan liggur ekki fyrir. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi er eina leiðin að ganga frá þessu með heimild þannig að unnt sé að fullnusta málið þegar niðurstaða liggur fyrir um verðmæti.