140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[18:42]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að eiga frumkvæði að þessari umræðu sem er mjög mikilvæg og gott að ræða þessa skýrslu. Ég hef áður haft um það góð orð hve það skiptir okkur miklu máli í umræðu um þetta flókna atriði, úrvinnslu skulda heimilda og fyrirtækja, að hafa þessa nefnd til að reiða okkur á. Við fáum mjög mikilvægar upplýsingar frá nefndinni. Hún hefur starfað afskaplega vel. Ég tók þess vegna afskaplega vel í þá hugmynd af hálfu velferðarnefndar að nefndin ætti frumkvæði að því að kalla eftir framlengingu á starfstíma nefndarinnar sem að öðrum kosti hefði runnið út um áramótin. Ég fagna því að velferðarnefnd tekur utan um úrvinnslu skuldamála heimilanna og þetta mikilvæga úrræði, sértæka skuldaaðlögun, með þeim hætti sem nefndin gerir nú með þverpólitísku samstarfi. Það er þannig sem lagt var upp með vinnslu þessa máls frá upphafi, frá því að ég sem félagsmálaráðherra byrjaði að vinna þetta með þáverandi félagsmálanefnd og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, sem á frumkvæðið að þessari umræðu, fyrir meira en tveimur árum síðan. Við höfum alltaf reynt að nálgast þetta þannig að þetta sé sameiginlegt úrlausnarefni okkar allra og það er mikilvægt að velferðarnefnd hafi vakandi auga með þessu.

Eftir því sem ég kemst næst hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að flytja slíkt frumvarp og jafnframt að taka á ákveðnum atriðum úr tillögum eftirlitsnefndar, þ.e. að leggja upp með það við fjármálafyrirtækin að þau haldi sértækri skuldaaðlögun betur fram og geri fólki betur kleift að nýta sér það úrræði í samræmi við tillögur nefndarinnar. Vonandi tekst að ná samkomulagi um þetta svo ekki þurfi að koma til löggjafar sem bindi fjármálafyrirtækin. Ég held að það sé alveg rétt hjá velferðarnefnd að ganga þessa leið og setja löggjöf ef ekki verður um samkomulag að ræða, því að þetta er mjög mikilvægur þáttur.

Lokið hefur verið við einföldustu verkefnin. Það blasir við. Það hefur orðið mikill árangur í skuldaúrvinnslunni en hann hefur fyrst og fremst verið í einföldu málunum þar sem um frekar fáa kröfuhafa er að ræða. Flóknu málin hafa beðið því að þau kalla eðlilega á miklu flóknari úrvinnslu. Mörg þeirra eru hjá umboðsmanni skuldara, mörg eiga erindi í sértæka skuldaaðlögun og það þarf að fá bankana til að vinna með samræmdum hætti að þessu leyti.

Af hálfu velferðarráðherra, sem fer með skuldamál heimilanna, og okkar í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu hefur verið farið ítarlega yfir þetta mál, bæði með sérfræðingum frá bönkunum og umboðsmanni skuldara, til að reyna að greiða úr verklagi og auðvelda meðferð þessara flóknu skuldamála því að það er enginn eðlismunur á úrvinnslu mála hjá umboðsmanni skuldara og í sértækri skuldaaðlögun. Mjög margir kröfuhafar munu þurfa að koma að og verkferlarnir þurfa að vera miklu hraðari og fljótvirkari og það þarf að vera auðveldara og einfaldara að lækka kröfur en eins og nefndin bendir réttilega á eru kerfislægar hindranir í þeim vegi. Auðvitað höfum við reynt að breyta þeim mörgum með lögum en það er mjög erfitt þegar margir kröfuhafar koma að, margir sem eru ekki vanir því að fást við lækkun krafna. Hér koma að kröfuhafar eins og byggingavöruverslanir, steypustöðvar o.s.frv., sem geta verið í allt öðrum færum og með allt önnur sjónarmið um lækkun krafna en bankar með digra afskriftasjóði. Það er því ekki einfalt mál að binda þetta allt saman en við munum vinna að því.

Það liggur fyrir að við munum funda í næstu viku með bankastjórum, velferðarráðherra og ég, og þá munum við fara yfir einstök atriði af þeim sem hér eru rakin. Mér finnst að það eigi að vera athugunarefni fyrir bankana hvort þeir geti gengið lengra í 110%-leiðinni í samræmi við hvatningu frá nefndinni. Mér finnst líka augljóst að þeir þurfi að bæta úr meðferð í sértæku skuldaaðlöguninni eins og ég hef rakið og bæta verklagið hvað varðar greiðsluaðlögunina.

Mér þykir líka ljóst að þeir þurfi að taka á varðandi málefni bænda. Það er hins vegar ekki einfalt í ljósi þess að ástæðan fyrir litlum afskriftum hjá bændum er eins og nefndin rekur „kerfislega“ of hátt verðmat á jörðum og að menn reikna til fulls væntar greiðslur samkvæmt búvörusamningum. Þar af leiðandi er bæði mögulegu tekjuflæði og virði eigna haldið uppi og því erfitt að þvinga fram afskrift. Það þarf að finna lausn á þessu. Hún er ekki einföld, en það þarf að finna hana.

Svo finnst mér það líka athugunarefni, sem Fjármálaeftirlitið þurfi að taka á, hvort það eigi að líðast að Lýsing sé ekki aðili að þessu samkomulagi í samræmi við 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sem kveður á um (Forseti hringir.) að fjármálafyrirtæki starfi (Forseti hringir.) í samræmi við góða viðskiptahætti. Ég vil meina að í samkomulagi um sértæka skuldaaðlögun og beinu brautina felist góðir viðskiptahættir, skilgreining á því hvað eru góðir viðskiptahættir, og það þurfi að taka á því af hálfu Fjármálaeftirlitsins (Forseti hringir.) ef fyrirtæki sem eru leyfisskyld treysta sér ekki til að fara að þeim meginreglum.

(Forseti (ÞBack): Forseti áminnir hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)