140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[18:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins tóku gildi 31. október 2009. Ég verð að segja að þegar maður horfir á lagatextann og gerir sér grein fyrir að það sem þau lög hafa einna helst skilað eru skýrslur eftirlitsnefndarinnar þá held ég að við verðum að horfast í augu við að þetta er fullkomið flopp. Fullkomin mistök hvernig þetta var lagt upp. Það kom mjög skýrt fram í fyrstu skýrslu eftirlitsnefndarinnar þar sem bent er á hversu fáir það eru sem væru í raun að fá sértæka skuldaaðlögun.

Nú er það þannig að velferðarnefnd hefur í hyggju að bregðast við þriðju skýrslunni með því að leggja til að sett verði umsóknareyðublað á vefsíðu fjármálafyrirtækjanna, (Gripið fram í.) umsóknareyðublað á vefsíðu fjármálafyrirtækjanna. Á það að leysa vanda heimilanna að fá umsóknareyðublað? (Gripið fram í: Algjört skilningsleysi.) Fáránlegt.

Hins vegar hvað varðar hinar raunverulegu tillögur sem koma fram í skýrslu eftirlitsnefndarinnar heyrir maður bara jarm í raun og veru frá stjórnarliðum. Að vísu verð ég að segja að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tekur aðeins betur í þær tillögur en hæstv. velferðarráðherra gerði í umræðum um fyrirspurn mína um það hvort kæmi til greina að breyta lögum um Íbúðalánasjóð til að koma til móts við ábendingar nefndarinnar.

Ég vil því enn á ný hvetja stjórnarliða til þess að grípa til raunverulegra aðgerða, skoða það sem kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar þar sem er einmitt verið að tala um þann mikla vanda sem heimilin eru í, þá miklu óvissu sem er til staðar um skuldastöðu heimilanna. Þessi lög hafa svo sannarlega ekki hjálpað þar til.

Ég vil líka (Forseti hringir.) benda á að hér er verið að leggja til að setja 50 milljónir í þessa eftirlitsnefnd. (Forseti hringir.) Við erum þegar búin að setja milljarð í umboðsmann skuldara. Væri kannski ekki hugsanlega hægt að láta umboðsmann skuldara sinna þessum verkefnum og spara pening og setja þá til dæmis í heilbrigðismálin?