140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[18:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrst að hinu jákvæða. Þessi eftirlitsnefnd skilar mjög góðum upplýsingum um stöðuna. Það er jákvætt. En það kemur í ljós að mjög litlar upplýsingar eru um stöðu heimilanna yfirleitt. Þar á Alþingi ákveðna sök því að hér hafa legið fyrir, bæði frá hæstv. ráðherra og eins frá mér, frumvörp um að kanna stöðu heimilanna. En það hefur ekki fengist afgreitt, hvort tveggja er í fyrrverandi hv. efnahags- og skattanefnd.

Það er ljóst að nokkuð stór hluti heimila er í miklum vanda og sum eru í gífurlega miklum vanda. Hér hefur verið rætt um jafnræði borgaranna. Í ljós kemur að jafnræði er innan hverrar stofnunar en alls ekki á milli þeirra. Landsbankinn meðhöndlar fólk allt öðruvísi en Íbúðalánasjóður, síðan kemur Lýsing sem meðhöndlar fólk bara ekki neitt. Þetta ójafnræði fær því varla staðist.

Svo er rætt töluvert mikið um mat á virði eigna og sumar stofnanir nota skattmatið á bifreiðum, sem er oft alveg úr takti við raunverulegt virði bifreiða. Eins er með hlutabréf, hvert er virði þeirra o.s.frv. Þetta er vandamál sem ekki hefur verið leyst.

Varðandi lánsveðin er það vandamál sem ekki hefur verið tekið á og ekki verið leyst.

Bændur eru svo alveg sér á báti. Hér hefur verið rætt um að þeir eru nefnilega bæði sem fyrirtæki og heimili, og auk þess eignamenn að jörðum. Sennilega er rekstur fyrirtækisins, bóndi, töluvert ofmetinn. Eins er mat á jörðinni örugglega ofmetið líka. Bændur eru því í mjög slæmri stöðu sem þyrfti að taka á.

Það sem vantar inn í þetta allt saman er samræming á milli stofnana.