140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[19:02]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum þriðju skýrslu eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun en nefndin fékk það verkefni að fylgjast með framkvæmd á sérstakri skuldaaðlögun samkvæmt samkomulagi sem gert var 31.10.2009 um leið og lög nr. 107/2009 tóku gildi.

Þetta var auðvitað ekki auðvelt verkefni. Segja má að markmiðið hafi verið að koma í veg fyrir að vildarvinir bankanna fengju einhverja vildarmeðferð. Talið var nauðsynlegt að fylgst yrði mjög náið með framkvæmd þess samkomulags.

Að einhverju leyti hefur nefndin gengið lengra en upphaflega var ætlað. Hún hefur meðal annars tekið við erindum frá einstaklingum en fyrst og fremst hefur hún verið að taka púlsinn á framkvæmdinni. Hún hefur tekið úrtök og safnað mikilvægum upplýsingum og komist meðal annars að þeirri niðurstöðu í þessari skýrslu að sambærileg mál hafi verið afgreidd eða séu afgreidd með sambærilegum hætti hjá fjármálastofnunum, sem er mikilvægt.

Frú forseti. Verkinu er ekki lokið. Við þekkjum þessi vandamál. Ég ætla ekki að fara að telja þau öll upp eða fjalla um þau á þessum stutta tíma; vandamálin í kringum þröngt túlkaða 110%-leið, það að þeir sem eru með lánsveð fá ekki sömu niðurfellingu og aðrir, vandamálið með mat á eignum bænda. Um þetta er allt saman fjallað í skýrslu nefndarinnar. Það er mjög mikilvægt að nefndin haldi áfram störfum. Ljóst er að aðgerðirnar hafa tekið lengri tíma og sumar hverjar allt of langan tíma. Og þessari endurskipulagningu verður ekkert lokið fyrir næstu áramót.

Samkomulagið gildir nú til ársloka 2012 og að frumkvæði hv. velferðarnefndar hefur verið lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að líftími nefndarinnar verði lengdur sem því nemur. Við tökum jafnframt upp ábendingu eftirlitsnefndarinnar varðandi sérstaka skuldaaðlögun, ekki til að flagga umsóknum á vefsíðum, heldur til að tryggja greiðari leið til að sækja um sértæka skuldaaðlögun (Forseti hringir.) með því að tryggja að menn eigi rétt á því að fá umfjöllun um sína umsókn, að menn fái (Forseti hringir.) niðurstöðu og leiðbeiningar um framhaldið ef til synjunar kemur.