140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirgripsmikla lýsingu á þessum breytingum sem láta lítið yfir sér en eru í rauninni nokkuð veigamiklar.

Í mínum huga er verið að víkka út hugtakið „lánaskuldbindingar“, sem er nokkurn veginn lán sem einhver skuldbinding er fólgin í, yfir í fjármálagerninga sem er mjög víðtækt hugtak og felur m.a. í sér framvirka samninga og alls konar gerninga sem geta stundum orðið mjög ógegnsæir og eru taldir hafa verið ástæðan fyrir hruninu í Bandaríkjunum fyrir þrem eða fjórum árum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um ríkisábyrgð og eigendaábyrgð á Landsvirkjun og sveitarfélagaábyrgð á Orkuveitunni og hvernig menn meta það þegar um er að ræða fjármálagerninga sem fela jafnvel í sér mismun á verði. Nú er orkuverð stundum eða hefur í sumum samningum verið miðað við álverð, síðan hafa menn keypt sig frá áhættu af sveiflukenndu álverði með því að kaupa framvirka samninga eða selt framvirka samninga á áli gegn t.d. sömu mynt og lánin eru í. Spurningin er hvernig menn meta svona fjármálagerninga sem geta verið mjög flóknir í krónutölu. Þá er ég að hugsa um ríkisábyrgðina, eins og við ræddum fyrr á þessum fundi í dag, og að hún þyrfti að vera í krónutölu.