140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Að minnsta kosti hluti af þessu máli er ekki alveg nýr fyrir okkur þingmönnum. Ég held að ég sé reyndar í grunninn sammála hæstv. ráðherra, við getum líklega ekki annað en samþykkt þessa undanþágu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Það breytir því þó ekki að ég er alls ekki sáttur við að við skulum þurfa að gera þetta hér ár eftir ár. Mig langar að velta því hér upp og spyrja, og hæstv. ráðherra kemur kannski að því í lokaorðum sínum: Hvernig stendur á því að þetta kemur svona seint inn? Það hlýtur að hafa legið fyrir í mjög langan tíma að það þyrfti að bregðast við þessu.

Ég tek undir þær vangaveltur sem hér hafa verið uppi með fjármálagerninga, ég held að það sé mikilvægt að við reynum að skýra með einhverjum hætti hvort þetta eigi við um alla fjármálagerninga. Við þekkjum líklega fleiri slæmar sögur af því orði eða orðtaki, eða hvað á að kalla þetta, en góðar. Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal um að þetta þurfi að skýra.

Það er líka rétt sem kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, hin stóru orkufyrirtækin eru búin að skipta upp þessari starfsemi sinni og þar af leiðandi er samkeppnisstaðan við Orkuveituna í eðlilegu umhverfi svolítið skökk.

Spurning sem ég leyfi mér að velta upp er eftirfarandi: Er sá frestur sem Orkuveitan fær hér ár eftir ár ef til vill til þess fallinn að þessir hlutir verði endurskoðaðir í hina áttina? Getum við hugsanlega snúið til baka? Er hagkvæmara að leyfa orkufyrirtækjunum sem þegar eru búin að skipta sér upp að vera með sams konar samrekstur og Orkuveitan er? Er það heimilt? Ég verð að viðurkenna að ég þekki það ekki alveg. Væntanlega er það langsótt, en það er að minnsta kosti ástæða til að kanna það.

Ég minntist á fjármálagerninga. Ég vil einnig nefna hér 8. gr. þar sem fjallað er um breytt eignarhald á fyrirtækinu og nefnd sem á að skipa til að fara yfir það mál. Ég velti því fyrir mér að nefndin á að skila tillögum eigi síðar en 31. desember 2012. Ég vona að ég hafi ekki misskilið neitt; þýðir þetta nokkuð að við það að þessi nefnd verði til muni Orkuveitan sjálfkrafa þurfa að fá sams konar fyrirgreiðslu að ári?

Landsnet er hluti af þessu frumvarpi hér og minnst er á það. Það er dreififyrirtæki sem þessi orkufyrirtæki eiga og ég velti aðeins fyrir mér hvort við eigum að skoða það hvernig við getum mögulega styrkt Landsnet og þá hugsanlega lækkað kostnað. Mjög flóknar reglur gilda um Landsnet, tekjumörk og annað, þær eru reyndar alveg gríðarlega flóknar, það er varla á færi nema mestu stærðfræðinga að átta sig á því hvað það allt þýðir. Nú kann að vera að ég varpi hér fram máli sem á eftir að koma í hausinn á mér einhvern tímann, en ég held að það hafi verið mistök á sínum tíma þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks seldi Landssímann, þ.e. seldi grunnnetið með símafyrirtækinu. Grunnnetið er að stofni til í dag Míla. Ég hef reyndar rætt það, ekki hér, en við ráðherra ríkisstjórnarinnar hvort það sé hreinlega grundvöllur fyrir því að eignast þennan hlut aftur. Nú er þessi hluti í Skiptum. Skipti eru að sjálfsögðu risafyrirtæki en eins og mörg önnur fyrirtæki eiga Skipti í einhverjum rekstrarvanda. Ég hefði haldið að það væri mjög freistandi fyrir ríkisvaldið að athuga hvort þessi hluti starfseminnar ætti hugsanlega að lenda aftur hjá ríkinu með einhverjum hætti og þá renna inn í Landsnet þannig að þá séum við með allt þetta undir. Við yrðum með símnetið, rafmagnið og allt þetta.

Ég vil bara koma þessu á framfæri því að eins og ég segi hef ég vakið athygli tveggja ráðherra í ríkisstjórninni á þessu áður, þó ekki hæstv. iðnaðarráðherra, og mér finnst lítið hafa gerst. Þess vegna vil ég koma þessu á framfæri og nefna það. Þá hef ég ekki minnst á hlut ríkisins í kapalfyrirtækjum eins og Farice og það allt saman.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekkert annað að gera varðandi þann hluta sem snýr að frestuninni en að það mál fari til nefndar og verði samþykkt á endanum. Það má hins vegar ekki verða árvisst að við sleppum einu fyrirtæki við að taka á þessu en öðrum ekki. (Gripið fram í.)