140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Kæri forseti. Ég ætla að leyfa mér að ávarpa þingheim í gegnum þig. Ég þekki margt ágætisfólk, bara svona venjulegt fólk, og mér blöskrar orðið að ég fæ alls staðar sömu spurninguna: Er þetta ekki skelfilegur vinnustaður sem þú ert á? Ég svara: Af hverju heldurðu það? Nú, það er fíflagangurinn þarna og heimskan og dónaskapurinn sem þarna ríkir í upphafi hvers einasta þingfundar undir nafninu Störf þingsins eða Óundirbúnar fyrirspurnir. Það er með þeim hætti að við getum ekki ímyndað okkur að nokkrum venjulegum manni sé líft þarna inni. (Gripið fram í.) Þetta hefur gert mig ansi hugsi.

Ég hef farið yfir það sem verið hefur hér í gangi undanfarna daga þar sem ekki einasta hafa verið fúkyrði af því tagi sem menn taka sér ekki í munn, svo sem að líkja andstæðingum sínum við bandamenn Saddams Husseins og yfirgengilegur dónaskapur af fleira tagi er svo blöskranlegur að venjulegu fólki er varla líft í þingsalnum.

Ég vek athygli á því að í salnum eru myndavélar og það er ekki stóri bróðir sem fylgist með okkur heldur þjóðin sem velur okkur til verka. Ég fullyrði að við höfum ofboðið þjóðinni með þessari heimsku og einkum og sér í lagi með nýja smábarnaleiknum sem hefst hér á hverjum einasta degi og heitir Frúin í Hamborg. (Forseti hringir.) Hann felst í því að neyða ráðherra til að svara spurningum með jái eða neii um hvort uppstokkun á ríkisstjórninni standi fyrir dyrum eða ekki. Hvaða fífl sem er ætti að geta sagt sér það sjálft að já eða nei-svar kemur því ekki við. (Forseti hringir.)