140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir góð orð í minn garð og vil um þær áhyggjur sem þingmaðurinn lýsir segja þetta: Fjöldi þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á skattkerfinu endurspegla fyrst og fremst tvennt: Annars vegar að hér voru stunduð víðtæk undanskot frá skatti og um langt árabil var ekkert gert til að loka ýmsum smugum í skattkerfinu, m.a. á grundvelli þeirrar víðtæku skýrslu sem var lögð fram um miðjan síðasta áratug. Þess vegna þurfti með nýrri ríkisstjórn að ráðast í að loka þessum smugum og breyta ýmsum þáttum sem menn höfðu hagnýtt sér í skattkerfinu.

Í öðru lagi þurfti að auka mjög tekjur ríkissjóðs og það var auðvitað ekki hægt að leggja það á einn hóp heldur var farið í að láta það koma sem jafnast niður. Þess vegna þurfti að fara í fjölmörg gjöld og skatta og það skýrir að mörgu leyti fjölda breytinganna. En það er mikilvægt að hafa lögin til stöðugrar endurskoðunar, leitast við að einfalda málin eins og kostur er og mæta því með breytingum ef áhrifin eru neikvæð.

Þingmaðurinn hefur áhyggjur annars vegar af auðlegðarskattinum og hins vegar af séreignarsparnaðinum og breytingunum á honum og varanlegum áhrifum þess. Í fyrsta lagi er rétt að hafa í huga að breytingin sem nú er ráðgerð á séreignarsparnaðinum er einmitt lögfest sem tímabundin og ég tel að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af varanlegum áhrifum þess á kerfi sem hefur um 200 milljarða í sjóðum. Ég held að það sé alveg klárt að það mun vel standast það þó að dregið sé tímabundið úr sparnaði í því.

Hvað auðlegðarskattinum viðvíkur er mikilvægt að fylgjast með því hvort auðmenn flytja í ríkum mæli frá landinu. Við gerðum það fyrsta árið og það kom í ljós að þeir sem borga auðlegðarskatt flytja í minna mæli frá Íslandi en landsmenn almennt. Helmingi lægra hlutfall auðmanna flutti á fyrsta árinu eftir hrun frá landinu en almenningur almennt (Forseti hringir.) Enn sem komið er er því ekki ástæða til að hafa áhyggjur af auðlegðarskattinum, ég legg áherslu á að við erum ekki að festa hann (Forseti hringir.) í sessi til framtíðar heldur er hann tímabundin neyðarráðstöfun.