140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við upphaf kjörtímabilsins voru kallaðir saman í stóra nefnd hagsmunaaðilar og fulltrúar stjórnmálaflokka til að fara yfir kvótakerfið. Nefndin skilaði viðamikilli skýrslu og hefur síðan borið nafnið sáttanefndin.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur nú ákveðið að setja í gang vinnu við að kanna möguleika á að draga úr vægi verðtryggingar og kannski verður þetta sáttanefndin hin síðari. Á þessum málum, eins og mörgum öðrum, höfum við misjafnar skoðanir en hins vegar eru þingmenn úr öllum flokkum sammála um að dýpka umræðuna og setja fram kosti og galla viðkomandi málefnis og reyna að komast að viðunandi lausn. Þessi vinnubrögð eru til eftirbreytni og mætti iðka víðar í stjórnmálum á Íslandi. Til dæmis tel ég að við eigum að nálgast vinnu við rammann, framtíðarstefnu í bankastarfsemi og gjaldmiðilsmálin með svipuðum hætti. Við eigum að styrkja umræðuhefðina, freista þess að skiptast á skoðunum með málefnalegri hætti en oft er gert í þessum þingsal og um leið læsa okkur ekki í ákveðnum stefnum eða skoðunum heldur vera opin gagnvart vandamálunum og freista þess að leysa þau þannig að sjónarmið sem flestra fái notið sín.

Þannig hefði ég til dæmis kosið að unnið hefði verið að málefnum Grímsstaða á Fjöllum. Sum okkar eru áhugasöm um erlenda fjárfestingu, þá sérstaklega fyrir norðan og þá sérstaklega í ferðaþjónustu, meðan aðrir setja fyrir sig stærð landsins sem um ræðir, þjóðerni kaupandans eða hvort nauðsynlegt sé að kaupa landið yfirleitt.

Við getum haft misjafnar skoðanir á þessu, virðulegi forseti, en við eigum að freista þess að setjast niður og sjá hvort hægt sé að komast að lausn sem tæki tillit til og sætti sem flest ólík sjónarmið. Það hefði verið eðlilegt í þessu máli sem öðrum að aðilar hefðu sest niður og kannað hvort flötur hefði verið til samstarfs þar sem þessum ólíku sjónarmiðum sem ég reifaði áður hefði verið mætt. Ég tel að við eigum að láta á það reyna áður en við tökum ákvarðanir hvort við getum náð saman í stórum álitaefnum þar sem hagsmunir og sjónarmið sem flestra fái notið sín.