140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er að verða ár liðið síðan við fluttum málefni fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga og er alveg þess virði að ræða það þar sem á morgun er alþjóðlegur dagur fatlaðs fólks. Til að fylgja þessum yfirflutningi eftir hefur verið starfandi samráðsnefnd sem fundar mjög reglulega og ég er svo heppin að eiga sæti í henni ásamt mörgu góðu fólki. Segja má að almennt hafi yfirfærslan gengið vel. Það fjármagn sem fylgdi málaflokknum virðist í raun og veru hafa orðið til þess að öll þjónustusvæði fá aukningu á fjármagni til að sinna þessari þjónustu þannig að samningurinn virðist út af fyrir sig hafa verið ágætur. Sveitarfélögin hafa staðið sig mjög vel. Þau hafa auðvitað verið óörugg í nýju hlutverki en það óöryggi er greinilega á undanhaldi, og mikinn metnað má víða greina þar sem sveitarfélögin og þjónustusvæðin sinna þessum málaflokki afar vel.

Í morgun kom ég beint af fundi samráðsnefndarinnar þar sem við fórum meðal annars yfir skýrslu frá réttindagæslufólki. Í frumvarpinu sem var samþykkt hér var hlutverk þess stóraukið sem og starfshlutfall þess sem virðist svo sannarlega vera að skila sér. Staðan var þannig að til að geta viðhaldið þessu vantaði 20,5 milljónir til að við gætum haldið þessari góðu þjónustu réttindagæslumannanna áfram og ég verð að segja að það vakti verulega athygli mína í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið fyrir nokkrum dögum að einungis fjórir þingmenn utan stjórnarliðsins treystu sér til að styðja þá fjárveitingu. Allir aðrir treystu sér engan veginn til að styðja þessa 20,5 milljóna fjárveitingu sem stuðlar að því að þjónusta við fatlað fólk og réttindi þess hefur stóraukist á öllum þjónustusvæðum. Ég verð að viðurkenna að stór orð um niðurskurð í velferðarmálum verða heldur máttlaus þegar það er skoðað. (Gripið fram í.)