140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði að fá að bregðast stuttlega við tveimur atriðum sem hafa komið fram í þessari umræðu, annars vegar frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem ræddi fangelsismál og mikilvægi þess að fram færi stefnumótun á sviði fangelsismála. Ég álít að um langt skeið hafi verið unnið að stefnumótun í fangelsismálum þjóðarinnar, nú af hálfu Fangelsismálastofnunar og innanríkisráðuneytisins og þar áður af hálfu dómsmálaráðuneytisins allt frá því að Björn Bjarnason gegndi embætti dómsmálaráðherra. Vissulega hefur mikil vinna á undanförnum árum verið unnin um stefnumótun í því efni.

Við erum núna komin á þann stað að þurfa að fara að taka ákvarðanir um uppbyggingu fangelsis. Ég held að allir þingmenn geti verið sammála um mikilvægi þess að taka slíkar ákvarðanir á næstunni. Menn geta að sjálfsögðu haft mismunandi skoðanir á því hvar það á að gerast og hvað fangelsið þarf að vera stórt, en fagfólk á þessu sviði hefur lagt tillögur sínar fyrir innanríkisráðuneytið sem hefur komið þeim til þingsins. Þær hafa meðal annars verið til meðhöndlunar í fjárlaganefnd sem fyrst og fremst skoðar fjárlagaþátt málsins en tekur engar faglegar ákvarðanir um hvar fangelsið á að vera. Ég tel að þetta mál sé í eðlilegum farvegi og við munum að sjálfsögðu ræða það við 3. umr. um fjárlög.

Síðan vildi ég stuttlega nefna það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á um skattalega meðferð á styrkjum frá Evrópusambandinu. Það mál er þannig vaxið að því er snýr að utanríkismálanefnd að utanríkisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem einnig var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar strax í haust. Það er alsiða að lagðar séu fram þingsályktunartillögur til staðfestingar á samningum sem gerðir eru á alþjóðasviði og sú þingsályktunartillaga mun að sjálfsögðu koma til meðferðar í hv. utanríkismálanefnd eins og allar aðrar slíkar. Þingmaðurinn þarf ekki að óttast að fá ekki svigrúm til að ræða það mál (Forseti hringir.) á þeim vettvangi.