140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá að komast hér að, Hreyfingin er enn þingflokkur á Alþingi. Mig langar að ræða fangelsismál og þá afstöðu formanns fjárlaganefndar að bygging nýs fangelsis sé stórpólitískt mál. Fangelsismál eru í vondri stöðu og hafa verið það í áratugi á Íslandi. Það eru ákveðnar ástæður fyrir því. Niðurstaðan er að fangar komast ekki í afplánun, það er vont fyrir fangana, það er vont fyrir samfélagið og dómar fyrnast.

Lagalegt samfélag á Íslandi hrynur ef refsingar eru ekki fullnustaðar, við skulum bara gera okkur grein fyrir því. Ef menn geta farið hér um víðan völl og framið glæpi og þurfa ekki að gjalda fyrir þá hrynur samfélag laga og réttar. Það að gera þetta mál stórpólitískt er skammarlegt. Hér er um að ræða, eins og margoft hefur komið fram í þingsölum, kjördæmapot sumra þingmanna Suðurkjördæmis sem líta á ógæfusömustu menn samfélagsins sem verslunarvöru í eigin endurkjöri. Og það er skammarlegt að þurfa að hlusta á þetta dag eftir dag. Það hefur ítrekað komið fram hjá sumum þingmönnum kjördæmisins að þeir vilja eitt risafangelsi í sínu eigin kjördæmi í atvinnusköpunarskyni. Slíkt fangelsi er óhagkvæmt, það er óhentugt og það er ekki gott fyrir fangana, það er ekki gott fyrir starfsfólkið og það er ekki gott fyrir samfélagið á svæðinu. Fangavarsla er með neikvæðustu störfum sem hægt er að hugsa sér og því fjölbreyttari úrræði og fjölbreyttari fangelsi sem til eru, því betra. Þá er hægt að víxla mönnum og föngum og reyna að gera eitthvað betra við þá en að hafa þá alla innilokaða í sama stóra fangelsinu.

Frestun á úrlausn vanda fanga og hvítflibbaglæpamanna ýtir undir samfélag ótta og það er ekki það sem fólk á Íslandi vill. Við stöndum frammi fyrir því að hugsanlega munu útrásarvíkingar eða fjárglæframenn þurfa að fara í afplánun, en þeir munu ekki komast í afplánun vegna þess að fjöldi þingmanna vill ekki að þeir fari í afplánun og það er skammarlegt.