140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ósakhæfir fangar á Íslandi og aðbúnaður þeirra fyrr og nú.

[11:13]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka upp þessa umræðu og fyrir að fara ágætlega yfir söguna og það sem fjallað hefur verið um á undanförnum dögum og vikum um hvernig staðið var að málum áður fyrr þar til réttargeðdeildin á Sogni var opnuð í október 1992.

Þeir einstaklingar sem dæmdir hafa verið ósakhæfir er þeir frömdu alvarleg voðaverk eru um leið dæmdir til vistunar á viðeigandi stofnun sem er í flestum tilfellum á Íslandi réttargeðdeildin á Sogni. Ábyrgð á vistun þeirra og meðferð fellur þar með undir velferðarráðuneytið og í því felast auðvitað skilaboð, þ.e. velferðarráðuneytið fær þessi mál af því að litið er á einstaklingana sem sjúklinga en ekki sem fanga og þá er ætlast til að þeir fái viðeigandi meðferð sem slíkir. Um þessa einstaklinga gilda lög um heilbrigðisþjónustu og lög um réttindi sjúklinga. Ábyrgðin á rekstri réttargeðdeildar var áður í höndum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands en árið 2009 var reksturinn falinn geðsviði Landspítalans og lýtur deildin faglegri stjórn réttar- og öryggisdeildar þess sviðs.

Réttindi þessara ólánsömu einstaklinga eru einnig tryggð í almennum hegningarlögum þar sem kveðið er á um að tilsjónarmaður skuli skipaður og að hann hafi eftirlit með því að dvöl einstaklingsins á stofnun sé ekki lengri en þörf er á. Getur tilsjónarmaðurinn farið fram á að mál viðkomandi sé tekið upp að nýju í héraðsdómi. Hafa þess háttar mál verið borin upp í Héraðsdómi Suðurlands. Við þann málflutning liggur fyrir álit yfirlæknis Sogns um ástand sjúklingsins og úrskurður dómarans leiðir síðan til útskriftar eða áframhaldandi vistunar. Með því er tryggt að viðkomandi dvelji ekki á lokaðri réttargeðdeild lengur en nauðsyn krefur.

Varðandi öryggi, aðbúnað og umönnun sjúklinga á réttargeðdeild byggist það á þeirri aðstöðu sem deildinni er búin, húsakynnum, mönnun fagfólks og faglegri kunnáttu starfsmanna. Þessir þættir eru síðan undir faglegu eftirliti landlæknis eins og á öðrum heilbrigðisstofnunum. Vistun sjúklinga á Sogni er þeim annmörkum háð í dag sem m.a. hefur komið fram í rökstuðningi framkvæmdastjóra geðsviðs Landspítalans, að helstu vandamálin sem blasa við séu óhentugt og óöruggt húsnæði með takmarkaðan fjölda rýma. Þar er staðsetningin gagnrýnd, þ.e. hvað hún torveldar endurhæfingu og einnig að hún býður ekki upp á nægjanlegt öryggi vegna fjarlægðar ef á auknum mannafla þarf að halda í bráðatilvikum.

Verkferlar hafa mótast af einangrun frá annarri geðþjónustu og svo hafa menn líka bent á rekstrarlega óhagkvæmni af staðsetningunni. Það eru allt saman hlutir sem komið hafa fram og við munum fjalla betur um síðar.

Hv. fyrirspyrjandi spyr hversu margir dvelji núna á réttargeðdeild. Það eru fimm innlagðir sjúklingar á réttargeðdeildinni á Sogni. Allt eru það karlmenn á aldrinum 25–45 ára og meðalaldurinn er 31 ár. Á rýmkunarskilyrðum í samfélaginu eru í dag ein kona og tveir karlmenn. Þessir sjúklingar eru undir nánu eftirliti göngudeildar réttargeðdeildar sem staðsett er á Kleppi. Þeir eru strax kallaðir inn aftur á réttargeðdeildina ef þeir brjóta skilyrði losunardóms. Tveir karlmenn hafa losnað undan skilyrðum losunardóms á þessu ári og annar þeirra losnaði raunar í gær. Þess utan eru tveir karlmenn á áframhaldandi eftirliti vegna fyrri sögu þótt þeir séu lausir undan dómsskilyrðum. Þeir sem eru á rýmkunardómi hafa undanfarin ár alltaf verið fleiri en sem nemur lausum plássum sem er erfið staða ef grípa þarf til bráðainnlagnar.

Hv. málshefjandi spyr síðan um hvort hugmyndir séu um að rannsaka fortíðina í þessum efnum vegna þess að hér kom fram, og hefur komið fram í fjölmiðlum, að báglega var staðið að þessum málum alveg þar til að réttargeðdeildin var stofnuð. Einnig var komið inn á þann faglega ágreining sem um málið var á sínum tíma þar sem menn töldu að af nauðung þyrfti að fara út fyrir bæinn vegna ágreinings fagaðila á höfuðborgarsvæðinu. Við getum komið betur inn á það.

Ekki hafa verið lögð drög að því að fram fari sérstök rannsókn á þessu tímabili, a.m.k. ekki enn þá, og ég hef ekki tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess. En auðvitað munum við fylgjast með umræðunni og skoða það og ræða við viðkomandi aðila í framhaldi af þeirri umfjöllun sem átt hefur sér stað síðustu vikur.