140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ósakhæfir fangar á Íslandi og aðbúnaður þeirra fyrr og nú.

[11:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þm. Birgis Ármannssonar í þessari umræðu, auðvitað eigum við fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni þeirra sem þurfa að sætta sig við að vera vistaðir þarna þegar við fjöllum um þá starfsemi sem nú er og eins þá starfsemi sem menn vilja sjá um þessa ósakhæfu sakamenn. Fram að þeim tíma, áður en Sogn var stofnað, var ástand þessara mála með miklum hörmungum á Íslandi. Menn þurftu að berja það í gegn með ansi miklum hávaða og krafti að það væri sett á laggirnar eins og fram hefur komið og rifjað var upp í fréttum nýverið.

Sagan í þessu máli er okkur Íslendingum ekki til mikils sóma. Staðreyndin er sú að á þeim 19 árum sem Sogn hefur verið starfrækt hafa farið þar í gegn um 50 sjúklingar, þ.e. sem lagðir hafa verið inn, og 44 útskrifaðir og með mjög góðum árangri. Enginn hefur verið endurdæmdur og með hliðsjón af því er óhætt að tala um 100% árangur af meðferðinni.

Það er líka hægt að segja að á þeim tíma, eftir 1992, 90% af starfstímanum, hafa verið þar sjö sjúklingar, þ.e. fullt hús, og meira að segja voru í nokkur ár of margir, átta eða níu, en miðað við lönd eins og Norðurlöndin hafa menn talað um að það þyrftu að vera 11 pláss á slíkri réttargeðdeild.

Unnið hefur verið faglegt mat en þá var skipaður hópur fjögurra manna sem fór yfir hvað skynsamlegast væri að gera í þessari starfsemi, að byggja hana upp á Kleppi, á nýjum stað eða að byggja hana upp á (Forseti hringir.) þeim stað þar sem hún er í dag. Niðurstaða þess hóps eftir vandlega yfirferð var sú að skynsamlegt væri að byggja upp áfram þar sem starfsemin er í dag. Við förum nánar yfir það á eftir.