140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ósakhæfir fangar á Íslandi og aðbúnaður þeirra fyrr og nú.

[11:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er hægt að taka undir með flestum sem hér hafa talað og það er rétt sem fram kemur að umræðan um þetta málefni er mjög þörf, enda ætlum við að ræða það í tveimur lotum.

Það sem mér er efst í huga núna er hvort heildarmyndin á þessum málaflokki sé nógu skýr og hvort þar sé þeirra meginhagsmuna gætt sem við höfum rætt um, þ.e. hagsmuna þessara einstaklinga. Ef við höfum einhverjar efasemdir um það verður að sjálfsögðu farið yfir það.

Hv. þm. Þuríður Backman sagði réttilega áðan að spurningin væri þessi: Hvernig skal vista ósakhæfa? Í þeirri nefnd frá 2006 sem nefnd hefur verið kom fram að líklega væri best að byggja áfram upp á Sogni, á sama stað. Það var tillaga hennar. Þar er væntanlega horft til heildarmyndarinnar þar sem hagsmunir einstaklinganna, mannréttindi þeirra, aðbúnaður og eins öryggi starfsmanna eru höfð í fyrirrúmi. Það held ég að við þurfum að hafa að meginstefnu, að reyna að samræma þessi sjónarmið öll, þ.e. að aðbúnaður sé sem bestur, hann sé á þeim stað þar sem einfaldast er að byggja hann upp og að umhverfið sé þannig að þar séu bæði þeir sem þar eru vistaðir sem og starfsfólk örugg í umhverfi sínu.