140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ósakhæfir fangar á Íslandi og aðbúnaður þeirra fyrr og nú.

[11:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. velferðarnefnd hefur nú á tveimur fundum fjallað um málefni barna og ungmenna 14–24 ára og við eigum áreiðanlega eftir að halda tvo, þrjá fundi um þau málefni enn, þar á meðal um þá sem vistaðir eru í fangelsum og á upptökuheimilum.

Það málefni sem við ræðum hér, aðbúnaður ósakhæfra fanga, snýst ekki um kerfið sem slíkt og má ekki gera það. Það snýst heldur ekki um atvinnusköpun í kringum umönnun og eftirlit með því fólki og það snýst heldur ekki um sparnað.

Geðsjúkir hafa átt sér fáa málsvara í gegnum tíðina. Þeim hefur að vísu fjölgað, en dæmdir ósakhæfir afbrotamenn hafa í rauninni ekki átt sér neina málsvara í samfélaginu. Komið hefur fram ný aðferðafræði, við getum kallað það nýja meðferð, og batahorfur geðsjúkra hafa gjörbreyst á þeim 20 árum sem við tölum aðallega um hér. Endurhæfing og eftirfylgd skipta mestu máli og tengsl við fjölskyldu og samfélag skipta líka miklu máli. Einangrun og að óla menn niður er ekki lengur boðlegt.

Ég gleymdi að þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir góð svör, ég byrjaði á unga fólkinu. Það er alveg ljóst að orðið hefur mikil breyting á með tilkomu réttargeðdeildarinnar og að bara fimm einstaklingar skuli vera vistaðir þar núna en sjö utan hennar segir mikið um hve margt hefur breyst í meðferð og umönnun ósakhæfra brotamanna á þessum tíma.