140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[11:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það kom fram í þessari umræðu, og í síðustu sérstöku umræðu sem fór fram hér á undan, að ákvarðanir í þessum málaflokkum eigi að taka af varfærni og af yfirvegun. Þessi ákvörðun um að flytja Sogn var ekki tekin af varfærni og alls ekki af yfirvegun. Hún var tekin í miklum flýti alla vega eins og það lýtur að þeim sem sinna þessari þjónustu og þeim sem njóta hennar.

Hæstv. ráðherra hefur upplýst að í janúar hafi legið fyrir rökstuðningur fyrir þessu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju voru starfsfólki Sogns ekki kynntar þessar niðurstöður? Af hverju var það ekki tekið með inn í þá vinnu sem greinilega hefur verið farið í eftir þetta við að flytja starfsemina?

Ég er ekki að gera lítið úr þeim fagmönnum eða þeim faglegu sjónarmiðum sem liggja að baki, en það sem ég skil ekki í þessu máli er það að árið 2006 er gerð úttekt á þessu. Árið 2011 er henni kastað til hliðar án þess að önnur fagleg úttekt sé birt. Það er þess vegna sem við nokkrir þingmenn, 11 þingmenn, höfum farið fram á það við hæstv. velferðarráðherra að þessari ákvörðun verði frestað á meðan gerð verði þessi úttekt til að tryggja að við séum að stíga rétt skref.

Svo er annað í þessu máli sem ég get ekki látið hjá líða að nefna og það er framkoman við starfsfólkið sem margt hvert hefur unnið þarna í fjölda ára, en starfsmannavelta hefur verið mjög lítil — þegar því er kynnt þetta er sérstaklega tekið fram að það geti fengið störf á nýrri deild. Það er samt sérstaklega tekið fram að þau fái ekki greitt fyrir akstur, (Forseti hringir.) þau geti ekki ekið til vinnu á vinnutíma. Nú er það þannig (Forseti hringir.) að það eru þrír læknar sem koma á Sogn, keyra í bíl frá stofnuninni í vinnutímanum. Það virðist alltaf vera (Forseti hringir.) munur á því hvort þú ert að flytja stofnun ríkisins til eða frá Reykjavík, (Forseti hringir.) það virðist ráða því hvernig með þessi mál er farið.