140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[11:53]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil árétta það sem ég sagði áðan: Við skulum gæta okkar á því að horfa hvorki á fangelsismál né umönnun geðsjúkra afbrotamanna sem atvinnuspursmál heima í héraði. Góður árangur hefur orðið í meðferð geðsjúkra, ekki bara á Sogni heldur í öllu samfélaginu eins og ég sagði áðan. Spurningin er: Getum við gert betur? Getum við gert betur fyrir þann hóp sem þarna er um að ræða? Ég velti því fyrir mér hvort betra er að nýta sér ný úrræði eins og eftirfylgd, eins og endurhæfingu í öðru umhverfi en í góðu fjallalofti uppi í sveit svo að ég bara tali hreint út um það, ég bara velti því fyrir mér.

Ég tel hins vegar að menn eigi að ræða það hversu mikilvæg þessi staðsetning er, ekki út frá atvinnusjónarmiði heldur út frá því hvernig fólki líður þarna og hvort því getur liðið betur annars staðar. Mér finnst þetta snúast um það fyrst og fremst.

Síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að menn eigi ekki heimili um aldur og ævi inni á lokaðri deild eða lokaðri stofnun. Lög um réttindi sjúklinga og 64. gr. hegningarlaga tryggir ósakhæfum brotamönnum tilsjónarmann. Sá á að fylgjast með því hvort menn geta losnað, eru hæfir til að losna og það hefur verið. Það hefur orðið af því. Menn þurfa slíkan tilsjónarmann vegna þess að oft og tíðum hafa menn brotið allar brýr að baki sér og öll tengsl við sína fjölskyldu, það er enginn sem getur hugsað um þá. Maður hlýtur að spyrja: Hver hefur eftirlit með tilsjónarmönnunum í þessu tilliti?

Frú forseti. Við skulum horfa til mannúðarsjónarmiða og til þess hvort við getum gert betur í þessum efnum.